Tveggja ára tafir á byggingu hjúkrunarheimilis

Svandís Svavarsdóttir og Dagur B. Eggertsson undirrituðu samning árið 2021 …
Svandís Svavarsdóttir og Dagur B. Eggertsson undirrituðu samning árið 2021 um byggingu nýs hjúkrunarheimilis í Grafarvogi. Ljósmynd/Heilbrigðisráðuneytið

Grasflötur í Grafarvogi þar sem nýtt sjúkrahús á að rísa stendur enn auður. Framkvæmdir áttu að hefjast fyrir tveimur árum en hafa tafist í skipulagi Reykjavíkurborgar, að sögn heilbrigðisráðherra.

Árið 2021 skrifuðu Svandís Svavarsdóttir, þáverandi heilbrigðisráðherra, og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri undir samkomulag um að hefja byggingu hjúkrunarheimilis við Mosaveg í Grafarvogi.

Engar framkvæmdir hafist

Fyr­ir­hugað hjúkr­un­ar­heim­ili á að hýsa allt að 144 íbúa og var áætlaður kostnaður við framkvæmdina 7,7 millj­arðar króna þá – sem væru í dag 9,2 milljarðar ef marka má verðlagsreiknivél hagstofunnar.

Fyrirhugað var að ríkið myndi leggja til 85% þeirrar upp­hæðar á móti 15% framlagi Reykja­vík­ur­borg­ar. Stefnt var að því að fram­kvæmd­ir myndu hefjast um mitt árið 2021 og að nýtt hjúkr­un­ar­heim­ili yrði tekið til notk­un­ar á síðari hluta ársins 2026.

Aftur á móti hafa engar framkvæmdir hafist á grasfletinum við Mosaveg.

Hjúkrunarheimili verður byggt í Grafarvogi. Nálægt Borgarholtsskóla.
Hjúkrunarheimili verður byggt í Grafarvogi. Nálægt Borgarholtsskóla. Kort/Map.is

„Eig­in­lega á núllpunkti“

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra lét þau orð falla á Alþingi í vikunni að framkvæmdir á hjúkrunarheimilinu væru „eig­in­lega á núllpunkti“.

„Þetta hefur tafist í skipulagi hjá Reykjavíkurborg. Ég kann ekki að útskýra það,“ segir Willum við mbl.is, spurður hvað hann meinti með ummælum sínum á Alþingi.

„Og það er bara miður að það hafi tafist. Miður fyrir alla.“

Bætir hann við að enn þurfi að fara í jarðvegsrannsóknir á svæðinu. Lengra séu framkvæmdirnar ekki komnar.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. mbl.is/Arnþór

Framkvæmdir við Ártúnshöfða eiga að hefjast í ár

Samhliða undirritun samnings um hjúkrunarheimili við Mosaveg staðfestu ráðherra og borgarstjóri viljayfirlýsingu um byggingu hjúkrunarheimilis fyrir allt að 200 íbúa á svæði við Ártúnshöfða í Reykjavík.

Í tilkynningu frá Stjórnarráðinu sagði á sínum tíma að unnið væri að vinnu við skipulagningu svæðisins og var stefnt að því að hægt yrði að hefja verklegar framkvæmdir við nýtt hjúkrunarheimili árið 2023. Það er árið í ár, eins og glöggir lesendur vita.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert