Bíllausi dagurinn var bæði umferðarþyngsti föstudagur mánaðarins og umferðarþyngsti dagur vikunnar á höfuðborgarsvæðinu, samkvæmt mælingum frá Vegagerðinni.
Bíllausi dagurinn fór fram á föstudag, af því tilefni var frítt í Strætó á höfuðborgarsvæðinu og með landsbyggðarstærtó. Fólk var hvatt til að hvíla einkabíla og nota fjölbreytta vistvæna ferðamáta.
Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, sagði í samtali við mbl.is á föstudag að margir hefðu nýtt sér þjónustu Stærtó og að vagnstjórar fyrirtækisins hefðu tekið eftir færri einkabílum á götunum.
Mælingar Vegagerðarinnar á hringveginum við Geitháls sýna hins vegar að Bíllausi dagurinn var umferðarþyngsti föstudagur mánaðarins, auk þess sem hann var umferðarþyngsti dagur vikunnar.
Fyrsta föstudag mánaðarins fóru 15.937 bílar um veginn, þann næsta 16.354 bílar, þar á eftir 17.402 bílar og loks 17.547 bílar á bíllausa daginn sjálfan.
„Þetta kemur okkur ekki á óvart, það er ekki óvanalegt að umferðin breytist lítið á bíllausa daginn,“ segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, og bætir við að dagurinn hafi ekki slegið mjög mikið í gegn á Íslandi.
Pétur er þó bjartsýnn á að einn daginn muni bíllausi dagurinn skila árangri, en sem stendur vanti upp á að Íslendingar nýti tækifærið og hvíli bílinn.
Bíllausi dagurinn virðist þó hafa borið einhvern árangur á hringveginum við Úlfarsfell, þar keyrðu 1.504 færri bílar á bíllausa daginn, miðað við föstudaginn á undan.
Þannig voru 41.529 bílar sem keyrðu um hringveginn við Úlfarsfell á bíllausa daginn, 43.033 föstudaginn þar á undan. Annan föstudag í mánuðinum fóru þó færri bílar um veginn heldur en á Bíllausa daginn, eða 41.460 bílar og það sama á við um fyrsta föstudaginn í mánuðinum þegar 40.218 bílar fóru um hringveginn við Úlfarsfell.