Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir að þegar vinna við endurbætur á Litla-Hrauni hófst hafi komið í ljós að húsakostur væri í slæmu ásigkomulagi og að það svaraði ekki kostnaði að leggja mikið fé í endurbæturnar. Því hafi verið ákveðið að byggja nýtt fangelsi að Litla-Hrauni eins og ráðherra greindi frá í dag.
„Það hefur legið fyrir í mjög langan tíma að það þyrfti að fara í mjög miklar endurbætur hér á Litla-Hrauni. Það var búið að gera ráð fyrir 2 milljörðum króna í endurbætur hér á húsakosti. Þegar framkvæmdasýsla ríkisins fór svo í þá vinnu kom í ljós að húsakostur hér er í slæmu ásigkomulagi og það svarar ekki kostnaði að fara leggja mikið fé í hann,“ segir Guðrún.
Hún bætir við að aldrei hafi verið byggt heildrænt utan um þá starfsemi sem fram fer á Litla-Hrauni með það í huga að þetta sé stærsta fangelsi á Íslandi.
„Núna erum við að hefja þá uppbyggingu að byggja hér til framtíðar. Horfa á þessi mál heildrænt og það eru auðvitað ákaflega spennandi tímar að geta byggt upp hér á Litla-Hrauni með tilliti til þess hvern og við viljum haga fangelsismálum til framtíðar með tilliti til öryggis fanga og öryggis starfsfólks,“ segir Guðrún.
Hún segir skrefið gríðarlega stórt og bendir á að fangelsið á Hólmsheiði sé eina húsið á Íslandi sem byggt var til þess að vera fangelsi.
Guðrún segir að framkvæmdir séu í raun hafnar og sjá má það greinilega þegar komið er á Litla-Hraun, en blaðamannafundur fór fram í gámi á svæðinu. Fleiri gámar eru komnir og hýsa þeir nú stoðþjónustu við fangelsið.
Stoðþjónustan er til dæmis heilbrigðis- og sálfræðiþjónusta. Guðrún segir að ef mæta ætti nútíma kröfum þyrfti að byggja mikið við Litla-Hraun og sem fyrr segir, myndi það ekki svara kostnaði. „Við ætlum ekki að fara klastra upp einhverri gámabyggð til að sinna þessari mikilvægu vinnu hér á Litla-Hrauni,“ segir Guðrún.
Líkt og fram kom í viðtali við Pál Winkel fangelsismálastjóra fyrr í dag verður nýja fangelsið byggt að erlendri fyrirmynd. Guðrún segir það rétt en viðurkennir þó að hingað til hafi hún ekki skoðað fangelsi á erlendri grundu en hún tók við embætti ráðherra fyrir þremur mánuðum.
Þó hefur hún skoðað öll fangelsi á Íslandi að undanskyldu fangelsinu við Kvíabryggju. Það sé hennar mat að það þurfi að byggja nýtt fangelsi sem fyrst.
„Það þarf að gerast hratt og það þarf að gerast örugglega,“ segir Guðrún.
Hún segir á að það sé hennar aðaláhersla að full starfsemi verði á Litla-Hrauni út byggingatímann en ljóst sé að það verði krefjandi.
Fyrirhugaður kostnaður við framkvæmdirnar eru sjö milljarðar króna.
Hvernig gekk að tryggja fjármagn til framkvæmdanna?
„Það voru 2,3 milljarðar þegar tryggðir til endurbóta og verða þeir nýttir til að teikna og hanna nýtt fangelsi. Einnig til að flytja hluta starfseminnar í gáma á meðan framkvæmdatíma stendur,“ segir Guðrún.
Hún segir að fyrir liggi að hliðra þurfi til öðrum framkvæmdum og gerir ráð fyrir að framkvæmdirnar muni rúmast innan fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar.
„Það er þó ljóst að í næstu fjármálaáætlun þurfum við hina 5 milljarðana,“ segir Guðrún.
Spurð út í fjölgun rýma á Sogni segir Guðrún stefnu sína að fjölga opnum fangelsisrýmum. Tölurnar sýni að endurkoma fanga sé minni hjá þeim sem eru í opnum fangelsum, samanborið við endurkomur fanga í lokuðum fangelsum
Guðrún bætir við að það sé einnig stefna hennar að bæta aðstöðu kvenna í fangelsum landsins og tryggja að konur hafi sömu tækifæri í kerfinu og karlar.
„Það er líka mjög mikilvægt að skoða fullnustukerfið okkar og aukið vistunarúrræði þeirra sem lenda í refsivörslukerfinu,“ segir Guðrún.