Nýtt fangelsi verður byggt á Litla-Hrauni

Páll Winkel fangelsismálastjóri og Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra á Litla-Hrauni í …
Páll Winkel fangelsismálastjóri og Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra á Litla-Hrauni í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Nýtt fangelsi verður byggt á Litla-Hrauni og mun það koma í staðinn fyrir það fangelsi sem er þar nú. 

Þetta kom fram á blaðamannafundi dómsmálaráðuneytisins á Litla-Hrauni í dag. 

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra kynnti áformin og sagði að undirbúningur við framkvæmdirnar myndi hefjast strax. Áætlaður kostnaður nemur 7 milljörðum króna. 

Páll Winkel fangelsismálastjóri sagði tíðindin marka tímamót og væri dagurinn stærsti einstaki dagur í sögu fangelsismála síðari tíma.

Í ræðu sinni benti Páll á að Litla-Hraun hefði verið tekið í notkun árið 1929 og að upphaflega hafi það verið byggt sem sjúkrahús, ekki fangelsi.

Hann sagði að búið væri að byggja ítrekað við hina upphaflegu byggingu, ekki með neina sérstaka hugmyndafræði um fangelsi eða betrun að leiðarljósi. „Það er hættulegt,“ sagði Páll.

Nýtt fangelsi mun rísa á Litla-Hrauni.
Nýtt fangelsi mun rísa á Litla-Hrauni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjölga rýmum á Sogni

Þá greindi ráðherra einnig frá því að fjölga ætti rýmum á Sogni. Verða 14 ný rými tekin í notkun á næstu mánuðum en þegar eru 21 rými þar. Kostnaður við uppbygginguna nemur 350 milljónum króna. 

Með þessari ákvörðun er verið að bregðast við ábendingum frá Umboðsmanni Alþingis varðandi stöðu kvenna í fangelsum. Í skýrslunni kom fram að staða kvenna í íslenskum fangelsum væri lakari en staða karla.

Áhersla lögð á öryggi

Við uppbyggingu nýs fangelsis á Litla-Hrauni verður byggt á nútíma þekkingu á sviði betrunar og öryggismála, með hagsmuni fanga, starfsmanna og fjölskyldna fanga í huga. 

Áhersla verður lögð á bætt öryggi, ekki síst fanga og starfsfólks, en einnig á bættan aðbúnað heimsóknargesta, þar sem gætt verður sérstaklega að þörfum barna. 

Samhliða umbótum á innviðum fangelsiskerfisins verður farið í endurskoðun fullnustulaga með áherslu á betrun og nútímalega nálgun. Ráðherra sagði umrædda endurskoðun tímabæra í ljósi reynslu síðustu ára og aðfinnslu eftirlitsstofnana þingsins og alþjóðlegra eftirlitsstofnana. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka