Félag íslenskra snyrtifræðinga (FÍSF) gerir alvarlegar athugasemdir við þau vinnubrögð sem lýst er í fréttaþætti Stöðvar 2 um meðferð fylliefnis við ísprautun.
Í tilkynningu frá félaginu fullvissa þau fólk um að faglærðir snyrtifræðingar innan félagsins noti ekki sömu aðferðir og lýst var í umfjöllun Kompás á Stöð 2, sem Vísir greindi frá, „þar sem ófaglærðir sinna fegrunarmeðferðum með fylliefnum“.
Í þættinum kom meðal annars fram að efni til að leysa upp varafyllingar sé notað á ólögmætan hátt á snyrtistofum hér á landi.
„Innan Félags íslenskra snyrtifræðinga eru faglærðir snyrtifræðingar sem er trygging fyrir fagmennsku, gæðum, öryggi og neytendavernd,“ segir meðal annars í tilkynningunni.
FÍSF kveðst deila áhyggjum húð- og lýtalækna og skorar á heilbrigðisráðuneytið að „tryggja öryggi neytenda“ með því setja fram reglugerð hérlendis um meðferðir með fylliefni.
„Félag íslenskra snyrtifræðinga fagnar umræðu um ísprautanir með fylliefnum enda verði það til þess að vekja athygli á mikilvægi þess að slíkar meðferðir séu í höndum fagfólks sem getur ábyrgst gæði og fagmennsku,“ segir í tilkynningunni að lokum.