Vilja ekki enda í lagnarýminu aftur

Marlín Aldís Stefánsdóttir og Sigurður Rúnar Hafliðason á Litla-Hrauni í …
Marlín Aldís Stefánsdóttir og Sigurður Rúnar Hafliðason á Litla-Hrauni í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Mikilvægt er að Fangavarðafélag Íslands fái að taka þátt í hönnun nýs fangelsis sem á að rísa í stað Litla-Hrauns. Þetta segja þau Sigurður Rúnar Hafliðason, formaður félagsins, og Marlín Aldís Stefánsdóttir varaformaður í samtali við mbl.is.

„Við höfum allt annan vinkil á þessa hluti og sjáum þá frá öðru sjónarhorni,” segir Sigurður Rúnar, en hann og Marlín Aldís voru viðstödd blaðamannafund á Litla-Hrauni í morgun þegar tilkynnt var um byggingu nýja fangelsisins.

Gamall fangaklefi á Litla-Hrauni.
Gamall fangaklefi á Litla-Hrauni. mbl.is/Árni Sæberg

Varðstofan í lagnarými

Sem dæmi um hluti sem geta gleymst nefnir Sigurður Rúnar að í nýjustu byggingunni á Litla-Hrauni er varðstofa fangavarðanna staðsett í lagnarými.

„Það gleymdist að gera ráð fyrir því að það þyrfti að vera aðstaða fyrir fangaverði. Ég hef væntingar um að það verði ekki klikkað á því aftur en það bendir okkur á að við þurfum að hugsa fyrir því að starfsfólk komi að þessum málum líka,” segir hann og bætir við að salerni sé ekki inni í lagnarýminu.

Einnig nefnir Sigurður Rúnar að ekki hafi verið gert ráð fyrir aðkomu sjúkrabíla að einu húsi á Litla-Hrauni. „Við höfum sjónarhorn sem hönnunaraðilar eru ekki alveg að hugsa út í,” segir hann og tekur fram að óskað hafi verið eftir aðkomu Fangavarðafélagsins að skipulagi nýja hússins.

Elsta byggingin á Litla-Hrauni, sem Guðjón Samúelsson teiknaði, er lengst …
Elsta byggingin á Litla-Hrauni, sem Guðjón Samúelsson teiknaði, er lengst til hægri á myndinni. mbl.is/Árni Sæberg

Hvað þarf að vera í nýja húsinu sem er ekki til staðar á Litla-Hrauni?

„Betra aðgengi í alla staði. Að við höfum rými til að vinna vinnuna. Það er krefjandi inni á milli. Eins og aðstaðan er hérna er orðið ansi langt að flækjast með menn sem eru kannski í sturlunarástandi á milli húsa,” svarar Sigurður Rúnar.

Ein starfsstöð í stað fjögurra

Alls eru 43 fangaverðir á vakt hverju sinni á Litla-Hrauni. „Starfsfólkið hérna er tvístrað á fjórar starfsstöðvar. Þegar við erum komin með eina starfsstöð fyrir allt fangelsið þá höfum við mikið meiri aðgang til að dreifa álaginu,“ segir hann.

Marlín Aldís bendir á að í fangelsinu á Hólmsheiði, þar sem hún starfar, séu fangaverðirnir með stjórnstöð í miðju húsinu með allar þær myndavélar, skjái og síma sem til þarf. „Það er okkar öryggisstaður og þaðan stýrum við öllu fangelsinu ásamt því að vera sýnileg,” segir hún.

Fangaverðir á Litla-Hrauni nýta sér öryggismyndavélar við störf sín.
Fangaverðir á Litla-Hrauni nýta sér öryggismyndavélar við störf sín. mbl.is/Árni Sæberg

Krefjandi en spennandi

Að sögn Sigurðar Árna verður krefjandi að takast á við breytingarnar sem verða þegar nýja húsið verður komið í gagnið. Fjögur til fimm ár taki að slípa hlutina til þannig að allt gangi eins og smurð vél.

„Það verður krefjandi að flytja og breyta en það er rosalega spennandi. Líka af því að við getum mótað okkar umhverfi þannig að það verði skilvirkara.”

Vilja fangavarðaskóla

Hann nefnir að stytting vinnuvikunnar hafi gert það að verkum að fjölga hafi þurft starfsfólki með þeim afleiðingum að álag hafi aukist því nýja fólkið hafi ekki sömu starfsreynslu. Sömuleiðis bendir Sigurður Árni á ekki verður boðið upp á fangavarðaskóla í vetur „þrátt fyrir að við séum hérna með 40 óskólagengna fangaverði”. Boðið hefur verið upp á slíkan skóla annað hvort ár í fjarnámi með fullri vinnu.

„Við viljum kalla eftir því að þessum hluta af starfseminni verði betur sinnt. Það er ómögulegt að menn séu að leysa af sem aðstoðarvarðstjórar og séu ekki búnir að ganga í gegnum skólann,” greinir hann frá og segir að með náminu fylgi aukið starfsöryggi og að fangaverðir eigi þar með auðveldara með að taka erfiðar ákvarðanir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert