Samgöngustofa hefur almennt áhyggjur af leiðum þar sem ekki er hægt að skilja að aksturshópa. Það er að segja þar sem gangandi, hjólandi og akandi vegfarendur þurfa að vera á sama stað. Hætturnar leynast víða en beygjureinar valda ekki meiri áhyggjum en aðrir skurðpunktar. Reykjavíkurborg er meðvituð um hætturnar og vinnur eftir þeirri meginreglu að fjarlægja beygjureinar þegar tækifæri gefast.
Ekið var á hjólreiðamann á gatnamótum Njarðargötu og Hringbrautar í síðustu viku, þegar ökumaður á leið til hægri, inn á Hringbraut frá Njarðargötu, ók á hjólreiðarmanninn sem var á leið yfir Njarðargötu. Erlendur S. Þorsteinsson hjólreiðamaður sagði í kjölfarið að beygjureinar sem þessi væru hönnunarvandarmál og hvatti hjólreiðamenn til að fara varlega.
„Alls staðar þar sem þessir tveir fararmátar skarast þá veðrur hætta á ferðum, þetta er víðar. Það eru hjólreiðastígar sem eru upphækkaðir yfir götur, þannig að hjólreiðarmaðurinn sér varla að það sé gata, því fyrir honum er það bara bein braut áfram,“ segir Gunnar Geir Gunnarsson, deildarstjóri öryggis og fræðsludeildar stjórnsýslu hjá Samgöngustöfu, spurður hvort Samgöngustofa hefði sérstakar áhyggjur af beygjureinum.
Hann segir hætturnar víða og því þurfi vegfarendur að fara með gát í umferðinni. Í því samhengi minnir Gunnar á þá góðu reglu að ná augnsambandi við bílstjórann áður en gengið, eða hjólað, er yfir götuna.
„Til að sjá að hann sé að stoppa fyrir þér, en ekki út af einhverju öðru.“
Gunnar segir Samgöngustofu almennt hafa áhyggjur af leiðum þar sem ekki er hægt að skilja aksturshópa að. „Það eru klárlega veikir punktar í umferðarkerfinu,“ þar sem ýmist bílar, gangandi eða hjólandi mætast. Hann segir beygjureinar þó ekki valda meiri áhyggjum en aðrir skurðpunktar.
„Reykjavíkurborg er meðvituð um hættuna sem stafar af beygjureinum sem liggja til hægri fram hjá gatnamótum,“ segir í svari Guðbjargar Lilju Erlendsdóttur, samgöngustjóra hjá Reykjavíkurborg.
Þar segir jafnframt að Reykjavíkurborg hafi um nokkurt skeið unnið eftir þeirri meginreglu að fjarlægja beygjureinar þegar tækifæri gefst. Til að mynda í tengslum við aðrar framkvæmdir. Ef ekki gefst tækifæri til að fjarlægja beygjureinar er leitast við að draga úr hraða ökumanna, til dæmis með því að setja hraðahindranir í aðdragandanum.
Guðbjörg nefnir jafnframt staði þar sem slíkar beygjureinar hafa verið fjarlægðar á síðustu árum. Það hefur til að mynda verið gert á gatnamótum Bústaðavegar og Grensásvegar, Bústaðavegar og Lönguhlíðar, Hverfisgötu og Lækjargötu, Sæbrautar og Snorrabrautar, Sæbrautar og Frakkastígs og Sæbrautar og Sægarða.