Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur hafnað beiðni malasíska athafnamannsins Loo Eng Wah um endurupptöku á kærumáli vegna fyrirhugaðra framkvæmda hans á Leyni 2 og 3 í Landsveit.
Kæran sneri að ákvörðun Skipulagsstofnunar þess efnis að uppbygging hans á svæðinu skuli ekki sæta umhverfismati en úrskurðarnefndin hefur í tvígang fellt úr gildi þá ákvörðun stofnunarinnar. Þetta er því þriðji úrskurðurinn sem fellur gegn Loo. Úrskurðarnefndin segir í úrskurði sínum nú að viðbótarupplýsingar sem Loo lagði fram séu ekki þess efnis að álykta megi að rangar forsendur hafi verið lagðar til grundvallar í málinu.
Úrskurðurinn hafi því ekki byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum sem séu skilyrði fyrir endurupptöku mála. Rakið er að þetta sé fullnaðarúrskurður á stjórnsýslustigi. Loo er þó bent á að hann geti leitað til umboðsmanns Alþingis telji hann sig beittan rangindum eða reynt að fá úrskurðinum hnekkt fyrir dómstólum.
Loo hyggst reisa allt að 200 fermetra þjónustuhús fyrir tjaldsvæði við Leyni, allt að 800 fermetra byggingu fyrir veitingastað, verslun, móttöku og fleira og allt að 45 gestahús á einni hæð, sum þeirra 60 fermetra að stærð og kúluhús við hvert og eitt. Áform Loos hafa hins vegar mætt harðri andstöðu landeigenda í nágrenni Leynis.