Allt sem var tilkynnt um í gær tengslum við byggingu nýs fangelsis í stað Litla-Hrauns hefur Afstaða, félag fanga á Íslandi, barist fyrir í langan tíma.
„Þetta eru allt ofboðslega góðar fréttir,” segir Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður félagsins, aðspurður.
„Þetta er búið að vera þannig að það er lítill árangur af Litla-Hrauni og það er ofboðslega erfið og slæm menning þar innanhúss, ekki bara hjá föngunum, heldur líka starfsfólki,” segir Guðmundur Ingi.
Hann segir þessa menningu m.a. einkennast af talsmáta, hugsanagangi, einelti og jafnvel kynferðislegri áreitni. „Með nýja fangelsinu megum við ekki láta það gerast að svona hugsunarháttur er áfram. Við erum ekki að ná árangri með fólki og vinnuaðstaðan verður líka leiðinleg fyrir starfsfólkið. Þetta eru hlutir sem við erum búnir að ræða með fangelsismálayfirvöldum mjög lengi,” greinir hann frá.
Formaðurinn bendir á hversu mikilvæg endurskoðun fullnustulaga er með áherslu á betrun og nútímalega nálgun, sem tilkynnt var um í gær. Þessi endurskoðun eigi vafalítið eftir að skila mestu.
„Þetta segir okkur að Ísland er loksins að fara að falla frá þessari svokölluðu refsistefnu og taka upp endurhæfingarstefnu í staðinn,” segir Guðmundur Ingi og bætir við: „Þetta erum við búin að vera að kynna fyrir stjórnvöldum síðasta áratuginn.”
Tilkynnt var um fleiri opin úrræði fyrir fanga í gær og segir formaðurinn að Afstaða hafi barist fyrir slíku í mörg ár, enda það eina rökrétta í stöðunni. „Flest lönd sem eru með miklar endurhæfingar eru að fjölga opnum úrræðum því þau skila mestu. Þeir sem eru að fara í gegnum opin úrræði eru ólíklegri til að fara aftur í fangelsi.”
Hann segir það ákveðna viðurkenningu fyrir Afstöðu að loksins skuli stjórnvöld taka mark á félaginu. Til marks um það er búið að tilkynna að það fái að vera með í hönnun á nýja fangelsinu og endurskoðun fullnustulaga.
„Það er á svona dögum eins og í gær sem maður sér hvað svona starfsemi eins og Afstaða er getur haft mikil áhrif,” segir hann.
„Markmiðið með nýja fangelsinu og nýju lögunum hlýtur að vera að framleiða betri borgara samfélagsins og fólk sem getur tekið þátt í atvinnulífinu,” bætir hann við og segir of mikið um það í dag að Litla-Hraun „framleiði” glæpamenn.