Tillaga sænsku arkitektastofunnar Fojab bar sigur úr býtum í alþjóðlegri samkeppni um þróun Keldnalands.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og formaður nefndar um þróun Keldnalands, tilkynnti þetta á fundi Reykjavíkurborgar og Betri samgangna í Ráðhúsi í Reykjavíkur í dag. Þar var einnig opnuð sýning á þeim fimm tillögum sem komust í seinna þrep samkeppninnar.
Í samkeppninni var gert ráð fyrir að lágmarki 10 þúsund manna byggð á svæðinu og að 5 þúsund manns starfi þar. Í seinni umferð keppninnar var ákveðið að sjá hvernig hönnunarstofur myndu skipuleggja svæðið miðað við að lágmarki 15 þúsund íbúa.
Fojab hlaut 536 stig í fyrsta sætinu en tillagan sem lenti í öðru sæti hlaut 420 stig. 36 tillögur tóku þátt í fyrri umferð samkeppninnar en fimm voru síðan valdar fyrir seinni umferðina.
Keldnalandið er um 116 hektarar og miðað við tíu þúsund íbúa yrði þéttni þar um 70% meiri en í Grafarholtinu, eða 86 íbúar á hektara samanborið við um 50 íbúa á hektara í Grafarholti.