Samstarfið hefur mikla þýðingu og styrkir tengslin

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku- og loftslagsráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku- og loftslagsráðherra. Ljósmynd/Anton Brink

Guðlaugur Þór Þórðarson , umhverfis- orku- og loftslagsráðherra, segir að samstarf Íslands og Póllands í orkumálum hafi mjög mikla þýðingu. Sagði hann að tengsl Íslands og Póllands væru kannski meiri en fólk átti sig á.

„Stærsta málið er að við Íslendingar erum alls ekki ein um að geta nýtt okkur jarðvarma. Á Íslandi er margt gott fólk af pólskum uppruna og margir Íslendingar eru þá í Póllandi þar sem margir Pólverjar hafa eignast börn hér en svo farið til baka.“

Stoltur af því að Pólland líti til Íslands

Kynningarfundur um möguleika á samstarfi í uppbyggingu hitaveitna og endurnýjanlegrar orku í Póllandi, var haldinn á hótel Reykjavik Natura. Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri ræddi við fundargesti um orkumál þá og nú áður en Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku- og loftslagsráðherra ávarpaði fundargesti.

Kvaðst ráðherra í ávarpi sínu stoltur af því að Pólland líti til Íslands þegar kemur að orkumálum og endurnýjanlegrar orku. Sagði hann jarðvarmamöguleika í Póllandi mikla sem veiti bjartsýni til að hægt verði að skipta jarðvarma inn fyrir steinefnaeldsneyti þar í landi.

Sagðist hann vona að nýsköpun í orkugeiranum fái að njóta sín í tengslum við verkefnið og sagðist vona að pólskir fundargestir fari aftur til síns heima uppfullir af hugmyndum frá Íslandi um endurnýjanlega orku.

Forfeðrunum aldrei fullþakkað

Guðlaugur sagði að við Íslendingar gætum sjálfsagt aldrei fullþakkað forfeðrum okkar að hafa stigið þau hugrökku skref að fara í orkuskipti eitt og tvö.

„Þau gerðu það að verkum að við þurfum ekki að grafa upp hér allar götur eins og þarf að gera í mörgum löndum ef menn ætla að stíga sömu skref. Staðreyndin er sú að það eru miklir möguleikar að nýta jarðvarma um allan heim og ekki síst í Evrópu.“

Segir ráðherra að Íslendingar hafi unnið með Pólverjum í mjög mörgum verkefnum og muni halda því áfram.

„Þetta gerir ekkert annað en að breiða út græna orku sem við eigum að nýta og að styrkja tengsl þjóðanna með samstarfi sem báðir aðilar hagnist á.“

Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri.
Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri. Ljósmynd/Anton Brink
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert