Heyra mátti andvarp léttis hjá þeim lögmönnum sem eru í Gullhömrum vegna Bankastrætis Club-málsins þegar fregnir bárust þess efnis að kaffið væri komið í hús.
„Það er komið kaffi!“ tilkynnti lögmaður blaðamanni. Án þess að ætla að kostnaðurinn við kaffið ríði baggamuninum má áætla að talsverðum fjármunum hafi verið varið við það að koma upp einu stykki réttarsal í Gullhömrum.
Hljóðkerfið er líklega öllu vanara því að úr því komi tónar Stuðlabandsins eða annarra sveita sem gjarnan skemmta í gleðskap fyrirtækja. Fyrir vikið þurfa sakborningar sem ræða við dóminn gjarnan að endurtaka sig, lögmenn líka. Svo allir séu á sömu blaðsíðu með það hverju er verið að svara í það skiptið.
Hvort Gullhamrar verði nýttir aftur til að hýsa dómsmál skal ósagt látið. Engu að síður verður ekki annað ályktað að Héraðsdómur Reykjavíkur sé orðinn barn síns tíma. Þar er gjarnan æði þröngt á þingi og ætla má að honum hafi verið ætlað að sinna samfélagi fyrri áratuga.
Aðalmeðferð málsins hélt áfram í dag klukkan 9.30, en þetta er annar dagur af mögulega sjö sem gert er ráð fyrir að aðalmeðferðin muni taka.
Fyrstu þrjá dagana verða skýrslutökur af sakborningum, en á fimmtudaginn og föstudaginn er gert ráð fyrir skýrslutöku af öðrum sem tengjast málinu en hafa ekki stöðu sakbornings.
Dómari málsins bannaði fjölmiðlum að færa fregnir af málinu á meðan skýrslutaka fer fram. Áformað er að málflutningur ákæruvaldsins og verjenda fari fram næsta mánudag og þriðjudag