Eimskip „fullmeðvitað“ um mögulegar afleiðingar

Hörður Felix Harðarson, lögmaður Samskipa.
Hörður Felix Harðarson, lögmaður Samskipa. Samsett mynd

Lögmaður Samskipa segir ákvörðun fyrirtækisins um að sækja bæt­ur á hend­ur Eim­skipi rökrétt framhald á sátt Eimskips við Samkeppniseftirlitið. Ákvörðun Eimskips hafi nú þegar valdið Samskipum töluverðu fjárhagslegu tjóni og ætti það að hafa verið ljóst fyrir Eimskip hvaða áhrif þessi sátt myndi hafa á samkeppnisaðilann sinn, Samskip.

„Þeir eru með mjög alvarlegum hætti, að okkar mati, að saka Samskip um ólögmæta, og eftir atvikum refsiverða háttsemi. Sú staðreynd að þeir hafi gert það er eitthvað sem er til þess fallið að valda tjóni og búsifjum í rekstri félagsins í heild sinni. Við ætlum að láta reyna á það hvort að keppinautur félagsins geti komist upp með athöfn af þessum toga,“ segir Hörður Felix Harðarson, lögmaður Samskipa, í samtali við mbl.is.

Eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag þá hefur Sam­skip falið Mörk­inni lög­manns­stofu að sækja bæt­ur á hend­ur Eim­skipi vegna meintra ólög­mætra og sak­næmra at­hafna fé­lags­ins gagn­vart Sam­skip­um.

Eim­skip hafi í sátt við Sam­keppnis­eft­ir­litið (SKE) lýst því yfir að fé­lagið hafi átt í sam­ráði við Sam­skip sem efnt hafi verið til á fundi 6. júní 2008 og í fram­haldi þess fund­ar.

Þegar valdið Samskipum fjárhagslegu tjóni

Nú er Samskip að leitast eftir viðurkenningu á bótaskyldu Eimskips án fjárhæðar. Hörður segir það mjög einfalt mál að sýna fram á það tjón sem Eimskip á að hafa valdið Samskipum sem afleiðing af sátt Eimskips.

„Þú þarft ekki að leita lengra en bara í það hvaða stöðu Samskip er núna í varðandi útgjöld og vinnu starfsmanna sem fer í það að verjast þessum röngu ásökunum sem Eimskip hefur stuðlað að með að koma með þessar staðhæfingar. Auðvitað er tjónið samt miklu umfangsmeira en bara það því þetta hefur verulega áhrif á reksturinn, viðskiptavini og lánveitendur. Þetta hefur bara áhrif víða,“ segir Hörður.

Spurður hvort Eimskip hafi gert þessa sátt með það í huga að það myndi skaða Samskip, í ljósi þess að hann minnist reglulega á það að fyrirtækin séu samkeppnisaðilar, segir hann svo ekki vera. 

„Ég er ekki að ýja að því að þetta hafi verið viljandi gert en ég held hins vegar að þeir hafi verið fullmeðvitaðir um hvaða afleiðingar þetta gæti haft. Það sem ég tel að þeir hafi líka verið meðvitaðir um er það að yfirlýsingarnar í þessari sátt eru um grundvallaratriðin í henni. Það er að segja að þetta samráð sem á að hafa komist á á fundi 6. Júní, eða í framhaldi hans, eru rangar,“ segir Hörður og bætir við:

„Ég er með bæði gögn í höndunum og yfirlýsingar félagsins sjálfs um það efnis sem ég tel að séu einfaldlega réttar. Það að fara fram með svona yfirlýsingar hefur náttúrulega afleiðingar. Þeir geta ekki lýst þessu yfir og sakað Samskip um einhverja háttsemi af þessum toga án þess að það hafi afleiðingar."

Segir SKE hafa farið offari

Hörður segir ekki hægt að mæla það hversu mikið ákvörðun Eimskipa um að gera sátt við SKE hafði áhrif á lokaniðurstöðu eftirlitsins, en að ákvörðunin hafi augljóslega vegið þungt.

„Ég held að sú ábyrgð sé talsverð því auðvitað skiptir það máli fyrir eftirlitið að annar aðilinn í ætluðu samráði stígi fram og viðurkennir sök eins og þarna var gert. En auðvitað ætti eftirlitið eftir sem áður að horfa til gagna málsins og skýringanna sem fram hafa komið, en þeir gera það ekki og styðjast við sáttina til að réttlæta þessa ákvörðun.“

Hörður segir það ekkert launungarmál að Samskip telji að SKE hafi farið offari með ákvörðun sinni. Öll framsetning þeirra sé „fullkomlega skert allri hlutlægni og meðferð málsins í heild bara mjög alvarleg og ábótavant“.

„Það leiðir til niðurstöðu sem við vitum að er efnislega ekki rétt,“ segir Hörður.

Málsmeðferðin verður í lengra lagi

Í tilkynningu frá Samskipum fyrr í dag kom fram að Samskip hefði skilað inn til áfrýj­un­ar­nefnd­ar sam­keppn­is­mála kæru vegna ákvörðunar SKE frá 31. ág­úst síðastliðnum um að leggja á Sam­skip 4,2 millj­arða króna sekt fyr­ir þátt­töku í meintu sam­ráði við Eim­skip. Þar er þess krafist að ákvörðun SKE verði felld úr gildi.

Nú tekur því við málsmeðferð hjá áfrýjunarnefndinni og telur Hörður að sú málsmeðferð verði í lengri kantinum og taki að lágmarki nokkra mánuði. 

Ertu bjartsýnn?

„Já ég er mjög bjartsýnn," segir Hörður að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert