Eiríkur Valberg, lögreglufulltrúi hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að grunur leiki á að fleiri en einn hafi komið að árásinni á ráðstefnugest Samtakanna '78 í gærkvöldi.
Samtökin '78 greindu frá því í dag að ráðist hafi verið á gest sem kom hingað til lands á ráðstefnu á vegum samtakanna.
Eiríkur segir rannsókn málsins vera á frumstigi. Lögregla sé nú að afla gagna um málið sem meðal annars feli í sér að skoða upptökur úr eftirlitsmyndavélum.
Spurður hvort árásin sé rannsökuð sem hatursglæpur segir hann að það sé eitt af því sem lögreglan sé að skoða. Hann gat ekki veitt frekari upplýsingar um líðan gestsins sem varð fyrir árásinni.
Álfur Birkir Bjarnason, formaður Samtakanna '78, sagði við mbl.is að gesturinn hefði verið einn á gangi, á leið heim af hátíðarkvöldverði, þegar ráðist var á hann.