„Hagnast enn meira á því að nýta ódýrt vinnuafl fátækra kvenna“

Sólveig Anna segir uppsagnirnar snúast um að spara peninga, en …
Sólveig Anna segir uppsagnirnar snúast um að spara peninga, en að enn sé hægt að snúa henni við. Samsett mynd/Eggert Jóhannesson

33 starfsmönnum verður sagt upp á Grundarheimilunum að sögn Sólveig Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar. Sólveig sendi í gær tölvupóst til félagsmanna varðandi uppsagnirnar og hyggst sitja starfsmannafund þar sem uppasagnirnar verða tilkynntar á morgun. 

Öllu starfs­fólki á Þvotta­húsi Grundar­heimilanna, sem eru átta talsins, verður sagt upp, en einnig verður 19 starfsmönnum í ræstinga­deild á Ási, hjúkrunar-og dvalar­heimili í Hvera­gerði sagt upp. Þá verða breytingar á sex störfum til við­bótar, ýmist með upp­sögnum eða störfin lögð niður.

Í samtali við mbl.is kveðst Sólveig Anna treysta sér til þess að fullyrða að íbúar Grundarheimilanna og aðstandendur þeirra styðji ekki við aðgerðirnar sem séu gerðar í þeim tilgangi að spara fjárhæðir séu ekki það háar og muni „á endanum leiða til þess að ríkir íslenskir karlar, sem að eiga ræstingafyrirtækin, geti hagnast enn meira á því að nýta ódýrt vinnuafl fátækra kvenna.“

Vísir greindi fyrst frá uppsögnunum.

Lifa almennt við verri lífskilyrði

Þegar blaðamaður mbl.is náði tali af formanninum kvaðst hún einmitt sitja við lestur á nýútgefinni skýrslu Vörðu, rannsóknarstofnunnar vinnumarkaðarins, um heilsu og fjárhagsstöðu ræstingastarfsfólks á íslenskum vinnumarkaði.

Segir Sólveig Anna niðurstöður skýrslunnar einmitt sýna bága stöðu ræstingarfólks, sem almennt lifi við verri lífskilyrði en annað fólk á almennum vinnumarkaði.

Skýrsla Vörðu sýni m.a. fram á að andleg og líkamleg heilsa ræstingafólks sé verri og að 49,6 prósent geti ekki mætt 80 þúsund króna óvæntum útgjöldum.

Hvetja stjórnendur til að endurskoða ákvörðunina

„Það er ekki síst vegna þessara aðstæðna sem við hvetjum þá sem fara með völdin á Grundarheimilunum til að endurskoða afstöðu sína,“ segir Sólveig Anna.

Hún kveðst sjálf hafa hringt í Gísla Pál Pálsson, stjórnarformann Grundarheimilanna, til að koma andmælum félagsins við uppsögnunum á framfæri, eftir að stjórnendur fyrirtækisins tilkynntu stéttarfélaginu um ákvörðunina. 

Hver voru viðbrögð hans við símtalinu?

„Hann móttók þessar upplýsingar frá mér. Mótmæli mín við aðgerðinni, hvatningu til að snúa henni til baka, ábendingu um að lesa niðurstöðu skýrslunnar um hræðilega stöðu ræstingafólks og jafnframt tilkynningu um að við í Eflingu myndum gera það sem við getum til þess að fá þau til að snúa ákvörðuninni til baka.“

Enn hægt að snúa ákvörðuninni við

Aðspurð hvort komi mögulega til frekari mótmæla, verði ákvörðun Grundarheimilanna ekki snúið við svarar Sólveig Anna játandi.

„Að sjálfsögðu munum við gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma þeim skilaboðum áleiðis, með eins skýrum hætti og hugsast getur, að við fordæmum þessa ákvörðun,“ segir hún og bætir við að henni sé svo sannarlega enn hægt að snúa við sé vilji til þess. 

Sólveig Anna sendi félagsmönnum sínum hjá Ás og þvottahúsinu tölvupóst í dag varðandi uppsagnirnar og kvaðst ætla að sitja starfsmannafundi sem fyrirtækið hefur boðað til. Þá hefur Efling einnig boðað til fundar með félagsmönnum sínum á þriðjudaginn næstkomandi. 

Ákvörðunin tekin til að spara peninga

Hafa Grundarheimilin greint frá því hvers vegna stendur til að segja upp þessu starfsfólki? 

„Til þess að spara peninga. Til þess að útvista þessum störfum, þá væntanlega til þessara ræstingafyrirtækja á almenna markaðinum, þar sem aðstæður hjá fólki eru einmitt mjög slæmar,“ svarar Sólveig og tekur fram að stór hluti ræstingastarfsfólks séu konur og innflytjendur.

„Það er þyngra en tárum taki að fylgjast með þessari útvistunarþróun sem virðist vera leidd af opinberum stofnunum og þeim sem þiggja fé frá ríkinu, eins og samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu til þess að reka sig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka