Orka náttúrunnar hefur óskað eftir yfirmati á mat dómskvadds matsmanns í máli Áslaugar Thelmu Einarsdóttur, fyrrverandi yfirmanns hjá fyrirtækinu, gegn því. Landsréttur komst í fyrra að þeirri niðurstöðu að uppsögn hennar hafi verið ólögmæt og hún ætti rétt á miska- og skaðabótum vegna uppsagnarinnar og ærumeiðinga frá stjórnendum Orkuveitunnar í kjölfarið.
Eftir dóm Landsréttar bauð ON Áslaugu 13,6 milljónir í bætur, en hún hafnaði því og krafðist um tífalt hærri upphæðar, eða 125 milljóna og höfðaði mál fyrir héraðsdómi.
Áslaug höfðaði bótamál í lok síðasta árs og var í ágúst lagt fram mat dómskvadds matsmanns. Samkvæmt upplýsingum mbl.is hljóðaði það mat upp á rúmlega helming þeirrar kröfu sem Áslaug fór fram á, eða um fimmfalt sáttartilboð ON.
Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Áslaugar Thelmu, staðfestir við mbl.is að beiðnin um yfirmatið hafi verið lögð fram af ON og að hann hafi jafnframt í fyrirtöku í dag lagt fram eigin matsgerð. Þá hefði ekki verið ákveðin dagsetning aðalmeðferðar, enda væri beðið yfirmatsins. Hann gat að öðru leyti ekki tjáð sig um málið.
Með yfirmati kveður dómurinn til nýja matsmenn, svokallaða yfirmatsmenn, sem leggja mat sitt á fyrra matið, svokallað undirmat. Eru þessi möt svo bæði notuð við rekstur málsins og þegar dómurinn ákveður endanlega upphæð sem greiða á í miska- og skaðabætur.
Mál Áslaugar Thelmu hefur nú staðið yfir í um fimm ár, en henni var sagt upp í September 2018. Við uppsögnina var vísað til frammistöðuvanda, en hún hafði áður kvartað yfir óviðeigandi hegðun þáverandi yfirmanns síns. Var yfirmanninum einnig sagt upp hjá fyrirtækinu tveimur dögum eftir að Áslaugu Thelmu var sagt upp.
Í kjölfar uppsagnanna og umfjöllunar um málið var innri endurskoðun Orkuveitunnar falið að vinna skýrslu um vinnustaðamenningu og einstök starfsmannamál, þ.e. málefni Áslaugar Thelmu og yfirmannsins. Var niðurstaðan, sem kynnt var á blaðamannafundi og í beinu streymi, sú að uppsagnirnar hafi báðar verið réttmætar.
Þá sagði Helga Jónsdóttir, þáverandi starfandi forstjóri OR og núverandi stjórnarformaður ON, að hún myndi skoða hvort um fjárkúgun væri að ræða þegar eiginmaður Áslaugar Thelmu, sendi stjórnendum OR tölvupóst fyrir hennar hönd og krafðist greiðslu í miska- og réttlætisbætur vegna uppsagnarinnar.