Ráðist á ráðstefnugest Samtakanna '78

Atvikið átti sér stað niðri í miðbæ Reykjavíkur.
Atvikið átti sér stað niðri í miðbæ Reykjavíkur. mbl.is/Eyþór

Ráðist var á gest sem kom hingað til lands á ráðstefnu á vegum Samtakanna '78 í gærkvöldi. Samtökin '78 segja frá í færslu á Facebook.

Fram kemur í færslunni að lögregla og sjúkrabíll hafi verið kölluð til og var gesturinn fluttur á sjúkrahús. Er líðan hans sögð eftir atvikum og að áfallið sé mikið. 

Einnig segir að veist hafi verið að ráðstefnugestum á göngu í miðbæ Reykjavíkur á mánudag.

Álfur Birkir Bjarnason, formaður Samtakanna '78, segir í samtali við mbl.is að ráðstefnugesturinn hafi verið á leið heim af hátíðarkvöldverði þegar ráðist var á hann stutt frá Fosshótel Reykjavík. Var hann einn á gangi. 

Álfur sagðist ekki vilja tjá sig frekar um líðan hans. 

Á borði lögreglu

Málið er á borði lögreglu og segir Álfur að ekki sé enn vitað af hverju ráðist var á gestinn eða hver var þar að verki. Hann segir árásir sem þessar velta upp spurningunni hvort þetta sé samfélagið sem við viljum búa í.

Spurður út í uppákomuna á mánudagskvöld segir Álfur að veist hafi verið með orðum að litlum hópi ráðstefnugesta sem voru á göngu niðri í bæ

Samtökin '78 buðu til ráðstefnunnar í samvinnu við forsætisráðuneytið og Norrænu ráðherranefndina. Hátt í 100 fulltrúar frá öllum helstu samtökum hinsegin fólks á Norðurlöndunum voru gestir á ráðstefnunni sem fór fram í gær á Fosshótel Reykjavík. 

Álfur Birkir Bjarnason, formaður Samtakanna '78.
Álfur Birkir Bjarnason, formaður Samtakanna '78. Ljósmynd/Aðsend

Enn ein áminningin um bakslag í réttindabaráttu

Segir í færslunni að Samtökin '78 hafi undanfarið þurft að huga sérstaklega að öryggismálum á viðburðum. Öryggisverðir voru á ráðstefnunni allan tímann sem og á hliðarviðburðum. Einnig voru Samtökin ‘78 í góðu sambandi við Ríkislögreglustjóra. 

„Þessir ömurlegu atburðir eru enn ein áminningin um að bakslag í réttindabaráttu hinsegin fólks, sem var eitt aðalumfjöllunarefni ráðstefnunnar, er raunverulegt, hættulegt og vaxandi vandamál á Íslandi rétt eins og í nágrannalöndunum,“ segir enn fremur í færslunni.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert