Raunverð íbúða lækkað um rúmlega fimm prósent

Síðastliðna tólf mánuði hefur íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 2,0%.
Síðastliðna tólf mánuði hefur íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 2,0%. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,7% í ágúst. Síðastliðna tólf mánuði hefur íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 2,0% og hefur raunverð því lækkað um 5,3%.

Þetta kem­ur fram í mánaðar­skýrslu Hús­næðis- og mann­virkja­stofn­un­ar, sem gef­in var út í morg­un.

Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins lækkaði verðið um 1,4% milli mánaða og annars staðar á landinu lækkaði verðið um 1%. Síðastliðna tólf mánuði hefur verð á íbúðum hækkað um 1,4% í nágrenni höfuðborgarsvæðis en annars staðar á landinu hefur verðið hækkað um 8%.

Raunverð íbúða hefur lækkað um 5,8% í nágrenni höfuðborgarsvæðisins en hækkað um 0,2% annars staðar á landinu.

Kaupsamningum og nýjum íbúðum fækkaði

Kaupsamningum um íbúðarhúsnæði fækkaði í júlí frá fyrri mánuði. Gerðir voru samtals 615 samningar um kaup á íbúðarhúsnæði í júlí samanborið við 709 samninga í júní. Á þessu ári hafa að meðaltali 614 samningar verið gerðir á mánuði samanborið við 825 samninga á mánuði að meðaltali fyrstu sjö mánuði síðasta árs.

Í ágúst komu 240 nýbyggðar íbúðir inn á markað á landinu öllu, samanborið við 398 íbúðir sem komu inn á markað í júlímánuði sem gerir 39,7% fækkun milli mánaða. Samtals hafa 2.276 nýbyggðar íbúðir komið inn á markað til þessa á árinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert