Samkomulag við Rauða krossinn um neyðaraðstoð

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hefur gert samkomulag við Rauða krossinn.
Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hefur gert samkomulag við Rauða krossinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hefur gert samkomulag við Rauða krossinn á Íslandi um tímabundið verkefni sem felur í sér neyðaraðstoð við útlendinga sem fengið hafa endanlega synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd hér á landi og eiga ekki rétt á aðstoð á grundvelli laga um útlendinga.

Fram kemur í tilkynningu frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu að breytingar hafi verið gerðar á endurgreiðslu til sveitarfélaga vegna áðurnefndra einstaklinga. Með breytingunum er skýrt hvað kemur til endurgreiðslu úr ríkissjóði vegna aðstoðar sveitarfélaga við fólkið.

Rauði krossinn veitir neyðaraðstoð

Þar sem óvíst er hvort dvalarsveitarfélag í hverju tilviki fyrir sig hafi yfir að ráða úrræði til að hýsa umrædda einstaklinga, sem ekki eiga í önnur hús að venda, hefur félags- og vinnumarkaðsráðuneytið sem fyrr segir komist að samkomulagi við Rauða krossinn um tímabundið verkefni sem felur í sér að umræddir einstaklingar geti fengið gistingu og fæði í samræmi við það sem almennt tíðkast í gistiskýlum fyrir heimilislaust fólk.

Ráðuneytið væntir góðrar samvinnu við sveitarfélögin við að tryggja umræddum einstaklingum gistingu og fæði í samræmi við framangreint. Gert er ráð fyrir að sveitarfélög geti vísað fólki til Rauða krossins í lok þessarar viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert