Mikil skjálftavirkni hefur mælst víða á Reykjanesskaga undanfarna viku og fremur mikið hefur verið um smáskjálfta. Fjallað er um þetta í vikuyfirliti á vef Veðurstofunnar.
Tveir skjálftar yfir þremur að stærð mældust á skaganum í gærkvöldi. Sá fyrri varð kl. 18.42 undir Kleifarvatni en sá síðari kl. 21.32, vestarlega á Reykjanesskaga, við Sandfellshæð.
Báðir voru þeir samkvæmt mælingum í gærkvöldi taldir af stærðinni 3,1. Kleifarvatnsskjálftinn var svo í morgun færður upp í 3,3, eftir nánari athugun vísindamanna á Veðurstofunni.
Smáskjálftavirkni hefur verið fremur mikil á svæðinu undanfarna viku og svo virðist sem sú aukna virkni haldi áfram inn í þessa viku, að því er segir á vef Veðurstofunnar.
Greint var frá því í Morgunblaðinu og á mbl.is á mánudag að möttulstrókurinn undir Vatnajökli kunni að hafa teygt sig undir Reykjanesskagann. Skýr merki um landris sjást á mælum í jörðu og ljóst þykir að kvika safnast fyrir á um sextán kílómetra dýpi.