Tíðar salernisferðir í Raggagarði

Vilborg Arnarsdóttir, opnaði Raggagarð í minningu sonar síns, Ragnars Freys, …
Vilborg Arnarsdóttir, opnaði Raggagarð í minningu sonar síns, Ragnars Freys, sem lést aðeins 17 ára gamall. mbl.is/Sigurður Bogi

Raggagarður í Súðavík er í vandræðum vegna salernisferða ferðamanna. Garðurinn er orðinn þekktur viðkomustaður hjá fólki sem ferðast um norðanverða Vestfirði.

Raggagarður er fjölskyldugarður sem var opnaður árið 2004 og þar er ekki rukkaður aðgangseyrir. Stofnandinn, Vilborg Arnarsdóttir, opnaði garðinn í minningu sonar síns, Ragnars Freys, sem lést aðeins 17 ára gamall.

„Í sumar hefur meira borið á því að akandi ferðalangar koma upp að Raggagarði til að nýta sér salernið eingöngu,“ segir á facebooksíðu Raggagarðs og á öðrum stað segir: „Þegar skip eru í höfn á Ísafirði þá koma allt frá einni upp í sex rútur á dag. Þetta er eitthvað sem litla áhugamannafélagið gerði engan veginn ráð fyrir að ætti eftir að gerast.“

„Súðavíkurhreppur hefur undanfarin ár lagt til starfsmann og stöðugildið er hugsað til þess að sjá um þrif og viðhald í garðinum. Eins og Bogga [Vilborg Arnarsdóttir stofnandi] nefnir í færslunni er garðurinn hugsaður fyrir börn og fjölskyldur. Hún bendir á að það er einungis kalt vatn í krananum og salernisaðstaðan er bara hugsuð fyrir fjölskyldufólk til að bjarga sér vegna heimsóknar í garðinn,“ segir Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri í Súðavík.

Skipulagðar ferðir og hafðar af þeim tekjur

„Margir ferðamenn hafa verið á svæðinu í sumar, ekki síst í tengslum við komur skemmtiferðaskipa til Ísafjarðar. Ferðir eru skipulagðar til Súðavíkur og það hefur eiginlega leitt af sér þetta ástand. Það segir sig sjálft að kostnaður eykst margfalt við að reka salerni ef þarna eru tíðar klósettferðir. Við fögnum auðvitað öllum gestum en Bogga hefur þurft að íhuga hvort hún þurfi að loka salernisaðstöðunni,“ segir Bragi og telur að ferðaþjónustufyrirtækin ættu að leggja eitthvað af mörkum til Raggagarðs í ljósi stöðunnar.

„Þetta eru skipulagðar ferðir hjá ferðaþjónustufyrirtækjum með það fyrir augum að hafa af því tekjur. Mér þætti við hæfi að viðkomandi ferðaþjónustufyrirtæki myndu styrkja garðinn til að mæta þessum kostnaði í ljósi þess að ekki er rukkaður aðgangseyrir í garðinn. Það er mín skoðun.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert