Engilbert Sumarliði Ingvarsson lést á Landspítalanum í Reykjavík 26. september, 96 ára að aldri.
Engilbert fæddist í Unaðsdal í Snæfjallahreppi 28. apríl 1927, sonur Salbjargar Jóhannsdóttur ljósmóður og Ingvars Ásgeirssonar, bónda, trésmiðs og bókbindara. Hann bjó í Unaðsdal fyrstu árin með foreldrum sínum en þau fluttust á nýbýlið Lyngholt í sömu sveit í janúar 1936. Á Lyngholti var heimangönguskóli og var Engilbert í barnaskóla þar og eftir það tvo vetur í Reykjanesskóla.
Hann flutti til Ísafjarðar 17 ára gamall árið 1944, lærði bókband í Iðnskólanum og þar kynntist hann konu sinni, Kristínu Ragnhildi Daníelsdóttur, Öddu, sem lést 2021.
Engilbert og Adda bjuggu á Ísafirði til 1953 þegar þau fluttu að Tirðilmýri á Snæfjallaströnd þar sem þau stunduðu búskap til 1987. Þau fluttu þá til Hólmavíkur og síðar til Ísafjarðar. Engilbert vann mikið að framfara- og félagsmálum fyrir sitt hérað.
Hann hafði forgöngu um að stofna Rafveitu Snæfjalla og stuðla að rafvæðingu Ísafjarðardjúps og vann að stofnun Orkubús Vestfjarða og sat þar í stjórn um árabil. Hann var einnig formaður stjórnar Djúpbátsins hf. og stjórnarformaður Íslax hf. Engilbert var formaður kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Vestfjarðakjördæmi á árunum 1978 til 1987 og sat í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins á sama tíma.
Hann var enn fremur stofnfélagi og fyrsti formaður félags eldri borgara í Strandasýslu og fyrsti formaður Snjáfjallaseturs. Engilbert fór að skrifa á áttræðisaldri bækur um búsetu og mannlíf á Snæfjallaströnd sem hann nefndi Undir Snjáfjöllum. Auk þess skrifaði hann bókina Þegar rauði bærinn féll um Ísafjarðarár sín og rit um Kolbein Jakobsson í Dal.
Engilbert lætur eftir sig sex börn; Daníel, Ingvar, Jón Hallfreð, Ólaf Jóhann, Atla Viðar og Salbjörgu, en elsti sonurinn Grettir lést 2015. Auk þeirra lætur Engilbert eftir sig 16 barnabörn og átta barnabarnabörn.