Árásarmennirnir ekki fundnir

Árásarmennirnir eru enn ófundnir og segir lögregla ekki útilokað að …
Árásarmennirnir eru enn ófundnir og segir lögregla ekki útilokað að árásin verði rannsökuð sem hatursglæpur. Samsett mynd/Eggert

Eiríkur Valberg, lög­reglu­full­trúi hjá miðlægri rann­sókn­ar­deild lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu, segir alls ekki útilokað að árásin sem gerð var á ráðstefnugest Samtakanna '78 á þriðjudag verði rannsökuð sem hatursglæpur.

Enginn hefur verið handtekinn í málinu að sögn Eiríks. Þrír voru handteknir á höfuðborgarsvæðinu í nótt í tengslum við rannsókn á líkamsárás. Segir Eiríkur þær tengjast tveimur líkamsárásum í austurborginni sem eru til rannsóknar. Tengjast málin því ekki.

Greint var frá því í gær að ráðist hefði verið á gest á ráðstefnu á vegum Samtakanna '78 á þriðjudagskvöld. Ráðstefnuna héldu samtökin í samvinnu við forsætisráðuneytið og norrænu forsætisnefndina. Um 100 fulltrúar frá öllum helstu hinsegin samtökum Norðurlandanna sóttu ráðstefnuna. 

„Við erum búnir að vera að taka skýrslur og fara yfir myndefni,“ segir Eiríkur spurður um gang rannsóknarinnar. 

Er grunur um hvort árásin hafi verið hatursglæpur?

„Það er bara enn til rannsóknar hvort að svo sé. Það er alls ekki útilokað það sé svoleiðis.“

Er vitað hvort árásarmennirnir séu íslenskir?

„Nei, það er ekki vitað,“ segir Eiríkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert