Árni Jónsson, forstöðumaður Laugardalslaugar, segir viðgerðum í Laugardalslaug miða vel áfram. Í dag var lokið við að tæma laugina, en hún hefur verið lokuð almenningi frá 26. september vegna viðhalds og ýmissa endurbóta.
„Staðan er sú að laugin tæmdist endanlega í morgun. Við þurfum að gera þetta hægt, en ástæðan fyrir því er að hita-og þrýstingsbreytingar geta haft áhrif á flísalögn hjá okkur og því þurfum við að vanda vel til verka,“ segir Árni.
Árni segir tæmingu laugarannar hafa gengið vel og að allt sé á áætlun eins og er.
„Tæmingin gekk mjög vel og það er í raun allt búið að ganga eins vel og við vonuðumst til. Í morgun voru verktakar mættir og byrjaðir að rífa niður þil hjá okkur og járnsmiðir komnir með forsmíðuð kýraugu til okkar,“ segir Árni, en í dag verður hafist handa við að skipta á kýraugum laugarinnar.
„Um leið og við opnum kýraugun sjáum við hvað ástandið er. En miðað við hvernig þetta lítur út á yfirborðinu er ég vongóður um að þetta muni ganga mjög vel.“
Að sögn Árna eru þeir sem koma að viðhaldinu vel í stakk búnir fyrir framkvæmdir næstu daga.
„Það eru allir tilbúnir. Múrarar, píparar, járnsmiðir og verktakar. Þetta er fjölskrúðugur hópur sem er kominn til okkar til þess að vinna þetta hratt og örugglega. Við erum með úrvalslið sem er eins og stormur að fara yfir laugina.“
Árni segir viðhald laugarinnar löngu tímabært, en hann telur laugina síðast hafa verið tæmda árið 2016, fyrir sjö árum síðan.
„Sumt af þessu gjörbreytir hlutum gagnvart öryggismálum og fólk verður öruggara. Lýsing í gegnum kýraugu veður betri, myndavélar sjá skýrar og kýraugun sjálf verða öruggari líka. Það er komin ryðmyndun og svoleiðis og það er hluti af því að við erum að taka þetta í gegn.“
Loks segir Árni mikla spennu hafa ríkt á svæðinu er laugin var tæmd fyrr í dag.
„Það var ótrúlega gaman að upplifa það þegar laugin var tæmd með reynsluboltunum okkar sem eru búnir að vera þarna lengi, það voru allir svo spenntir,“ segir Árni.
„Fólk var að taka sjálfur ofan í lauginni til þess að eiga til. Það er búið að vera margt sem hefur glatt okkur, en leiðinlegast finnst okkur auðvitað að vera ekki til staðar fyrir viðskiptavini okkar“ segir Árni sem kveðst hlakka til þess að taka á móti fólki að nýju með bættri og öruggari laug.