Finna fyrir óöryggi eftir árásina

Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna '78, segir hinsegin samfélagið finna …
Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna '78, segir hinsegin samfélagið finna fyrir óöryggi í kjölfar árásarinnar. Samsett mynd/Eggert/Aðsend

„Ástand hans er það stöðugt að þeir komust heim í morgun,“ segir Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna '78, spurður um líðan mannsins sem varð fyrir líkamsárás á þriðjudagskvöld.

Maðurinn, sem var gestur á ráðstefnu á vegum Samtakanna '78 var að ganga heim eftir hátíðarkvöldverð að lokinni ráðstefnu þegar ráðist var á hann. Lögregla rannsakar nú málið og segir ekki útilokað að málið verði rannsakað sem hatursglæp. 

Daníel átti fundi með Guðrúnu Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra og Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í gær og segir þær báðar líta málið alvarlegum augum. 

„Við ræddum um málefnin í stóru samhengi. Hatursorðræðu og hatursglæpi, þessi löggjöf í forsætisráðuneytisins er ekki á þingmálaskrá ríkistjórnarinnar núna, en ég veit að forsætisráðherra ætlar að beita sér í málinu,“ sefur Daníel. 

Hafa öskrað sig hás síðustu ár

Hann kveðst ánægður með að ráðherrar taki málinu alvarlega. „En á sama tíma höfum við verið að öskra okkur hás síðustu tvö til þrjú ár. Þetta byrjar allt undir niðri, með upplýsingaóreiðu, svo tortryggni, svo er ráðist að félagssamtökum, einstökum hópum á netinu og svo ágerist þetta,“ segir Daníel. 

„Það er rosalega gott að þetta sé tekið alvarlega, en það hefði líka verið rosalega gott ef þessu hefði verið tekið alvarlega fyrr,“ bætir hann við. 

Fólk verði að taka þessu alvarlega

Spurður hvort hann líti á árásina sem hluta af þróun sem hefur átt sér stað undanfarin ár segir hann já, að einhverju leyti.

„Auðvitað í stóra samhenginu, er ekki hægt að segja að þetta sé bein afleiðing af þessu, en þetta er það samt, því upplýsingaóreiðunni hefur bara verið leyft að fljóta,“ segir Daníel. 

Hann segir óöryggi vera í hinsegin samfélaginu. 

„Fólk verður að taka þessu alvarlega núna því það er óöryggi innan hinsegin samfélagsins. Líðanin hjá okkur öllum var þannig í gær,“ segir Daníel. 

Gríðarleg öryggisgæsla

Á ráðstefnunni voru gerðar öryggisráðstafanir og var öryggisgæsla mun meiri en áður hefur verið höfð á ráðstefnum sem þessum á Íslandi. 

„Samt kemur þetta upp, við gerðum öryggisráðstafanir á hótelinu, það öryggisverðir sem komu fólki í leigubíla eftir hátíðarkvöldverðinn. Sá sem ráðist var á, hann fór fyrr. Enda gat fólk valið, hvort það færi með leigubíl eða hvort það gengi. Hann ákvað að ganga. Við gátum ekki ímyndað okkur að þetta yrði raunin,“ segir Daníel.

Daníel bendir á að Ísland sé almennt talið öruggt land og að Íslendingar vilji búa við öryggi. 

„Ég veit að meirihluti íslendinga vill það, að fólk geti verið frjálst og öruggt í eigin skinni, bara eins og það er. Þess vegna er svo mikilvægt að við tökum höndum saman til þess að reyna að sporna við þessari þróun,“ segir hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert