Góður gangur er í framkvæmdum við Hornafjörð, þar sem lagður er 19 kílómetra langur vegur úr Nesjum til Hafnar yfir Skógey, á leið þar sem meðal annars verður 250 metra löng brú yfir Hornafjarðarfljót.
Brýrnar verða annars fjórar; það er úr vestri yfir Djúpá, fljótið sem fyrr er nefnt, Hoffellsá og Bergá. Við Djúpá voru á dögunum reknir niður staurar sem verða undirstöður brúar þar. Innan tíðar verður svo hafist handa við staursetningu við stórfljótið sjálft.
„Verkinu miðar vel,“ segir Guðmundur Sigurðsson, tæknifræðingur hjá Ístaki hf., sem er meðal þeirra sem stýrt hafa þessu verkefni. Gengið var frá samningum milli Vegagerðar og Ístaks á síðasta ári. Áætlaður heildarkostnaður við verkið er liðlega 6 milljarðar króna.
Nærri lætur að um helmingur undirlags nýja vegarins hafi verið lagður út. Farg er sett á þá veglínu sem komin er, en þannig verður jarðvegurinn látinn síga í nokkra mánuði áður en kemur að endanlegum frágangi. Unnið er að gerð veganna bæði úr vestri og austri og í Skógey eru vinnubúðir starfsmanna Ístaks sem þessari framkvæmd sinna. Þeir eru nú rúmlega 30 talsins, að stærstum hluta tækjamenn sem margir eru frá til dæmis Portúgal, Póllandi og Litháen. Staðarstjóri er Aron Örn Karlsson.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.