„Þetta eru lögin í landinu. Fólk fór af stað án þess að hafa hlutina í lagi. Það er það sem við erum að kljást við,“ segir Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, um takmörkun á tölvunotkun við kennslu í grunnskólum.
Spjaldtölvunotkun hefur aukist verulega við kennslu í grunnskólum á undanförnum árum.
Í Reykjavík hefur t.d. 609 milljónum króna verið varið í kaup á 6.700 námstækjum til að nota við kennslu á undanförnum þremur árum til viðbótar við þau tæki sem voru fyrir.
Notkun tækjanna er þó takmörkuð og lokað hefur verið á efni sem rekja má beint til fyrirtækja sem geta falið í sér beinar eða jafnvel duldar auglýsingar. Jafnvel þótt efnið hafi nýst vel við kennslu til þessa.
Takmörkun á notkun tækjanna má rekja til úrskurðar Persónuverndar frá því í maí 2022 þegar fimm milljóna króna stjórnvaldssekt var lögð á Reykjavíkurborg vegna notkunar á Seesaw-nemendakerfinu í grunnskólum.
Líkur voru taldar á að skráðar væru í kerfið viðkvæmar persónuupplýsingar og upplýsingar viðkvæms eðlis, svo sem endurgjöf kennara og upplýsingar um hrein einkamálefni nemenda.
Persónuvernd taldi Reykjavíkurborg hafa sýnt gáleysi og réðst því í frumkvæðisathugun á upplýsingaöfluninni 2021 eftir ábendingu foreldris. Persónupplýsingar nemenda voru vistaðar í Bandaríkjunum þar sem persónuvernd er minni en hér.
Reykjavíkurborg var gert að loka reikningum skólabarna í upplýsingakerfinu Seesaw og sjá til þess að öllum persónuupplýsingum þeirra yrði eytt úr kerfinu en þó ekki áður en tekin hefðu verið afrit af upplýsingunum til að afhenda börnunum eða, eftir atvikum, til varðveislu í skólunum og var það gert.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.