Spurning hvort þeir skjóti 15. skotinu

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og Starfsgreinasambandsins, segir hækkun á verðbólgu upp í 8%, sem kom fram í tölum Hagstofunnar í morgun, vera ívið meiri en hann reiknaði með. Fyrst og fremst hafi hún hækkað vegna þess að mjög lág verðbólgutala fyrir ári síðan hafi dottið út.

Greiningaraðilar hafa spáð því að verðbólgan lækki aftur í næsta mánuði. Vilhjálmur bendir á spá þess efnis að hún verði komin niður í 6,8% í desember. Sú tala sé ekki fjarri því sem lagt var upp með í kjarasamningum í desember síðastliðnum, þ.e. að hún væri komin niður í 6% í kringum nóvember/desember. „Ef sú spá gengur eftir erum við ekki langt frá því markmiði,” greinir Vilhjálmur frá.

Hann nefnir að það sem hafi mest áhrif á launafólk og heimilin í landinu séu „þessir okurvextir” sem hér séu í gildi. Vaxtaumhverfið hér á landi þekkist hvergi í þeim löndum sem við berum okkur saman við.

„Mesta lífskjaramál heimilanna og launafólks er að fólk búi hér við sambærilegt vaxtastig og í þeim löndum sem við erum að bera okkur saman við,” segir Vilhjálmur.

Húsnæði í Reykjavík.
Húsnæði í Reykjavík. mbl.is/Sigurður Bogi

Heimilin að sligast

„Það er búið að skjóta á heimilin 14 skotum og það er bara spurning hvort þeir ætla að skjóta 15. skotinu og láta bara heimilin liggja kylliflöt. Þau eru að sligast undan þessu,” bætir hann við og á þar við vaxtahækkanir Seðlabankans.

Vilhjálmur bendir einnig á stöðu bænda, sem séu að kikna undan auknum fjármagnskostnaði, og á stöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem skulda.

„Þessi aðferðafræði Seðlabankans gagnvart heimilunum, fyrirtækjunum og bændum hefur gert þessum aðilum gríðarlega erfitt fyrir, svo vægt sé til orða tekið.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert