Undirstaða til framleiðslu kjöts á rannsóknarstofu

Berglind Rán Ólafsdóttir, forstjóri ORF Líftækni, og byggplantan sem notuð …
Berglind Rán Ólafsdóttir, forstjóri ORF Líftækni, og byggplantan sem notuð er til þess að framleiða vaxtaþættina. Samsett mynd

ORF Líftækni undirritaði á dögunum samstarfsyfirlýsingu við kóreska matvælafyrirtækið SeaWith um þróun og framleiðslu á vaxtaþáttum fyrir vistkjöt. SeaWith mun þannig nýta vaxtarþætti frá ORF við væntanlega framleiðslu á vistkjöti.

ORF var stofnað árið 2001 og hefur framleitt vaxtaþætti síðan árið 2007. Á fyrstu árum fyrirtækisins þróaði það kerfi sem notað er til að framleiða vaxtaþættina, en þeir eru framleiddir úr byggplöntum. Það var síðan árið 2019 sem ORF byrjaði að þróa vaxtaþætti sem henta til vistkjöts framleiðslu.

Til útskýringar er vistkjöt ný tegund matvöru, þar sem kjöt er ræktað án þess að dýr sé alið, því slátrað eða landsvæði rutt með tilheyrandi umhverfisáhrifum, segir Berglind Rán Ólafsdóttir, forstýra ORF Líftækni.

Björn Örvar meðstofnandi, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og vísindastjóri ORF Líftækni og …
Björn Örvar meðstofnandi, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og vísindastjóri ORF Líftækni og Lee Heejae, vísindastjóri og meðstofnandi SeaWith við undirritun samstarfssamnings fyrirtækjanna í Seoul í Kóreu þann 11. september síðastliðinn. Ljósmynd/ORF Líftækni

„Betra að borða vistkjöt heldur en hefðbundið kjöt“

„Fimmtán prósent af losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum stafar frá hefðbundinni kjötneyslu. Það eru nokkrar leiðir sem að heimurinn hefur til að minnka þessa losun, þær fela allar í sér að hætta að borða hefðbundið kjöt. Þú getur hætt að borða kjöt með því að borða plöntur, grænmeti og grænmetisafurðir. En ef þú vilt borða kjöt, þá verður betra að borða vistkjöt heldur en hefðbundið kjöt,“ segir Berglind.

Er vistkjöt þá vegan?

„Í rauninni er það ekki vegan þar sem það er unnið úr dýrafrumum. Fyrirtækin sem framleiða vistkjöt taka sýni, eða vökva, úr vöðva úr lifandi dýri, svo er þessi vökvi tekinn og stofnfrumur, eða ósérhæfðar frumur úr vökvanum, settar í rækt. Í þessari rækt þurfa að vera þessir vaxtarþættir sem við framleiðum, til þess að frumurnar fjölgi sér og sérhæfi sig,“ segir Berglind og bendir jafnframt á að dýrið verði ekki fyrir neinum skaða.

Þannig má framleiða nautakjöt með því að nota nautafrumur, svínafrumur til þess að framleiða svínakjöt og svo framvegis. Þar af leiðandi er kjötið ekki vegan en Berglind segir að kannanir hafi sýnt að í kringum fjórðungur þeirra sem kýs að neyta ekki dýraafurða, sjái fyrir sér að neyta vistkjöts. „En svo á þetta eftir að koma í ljós,“ bætir hún við.

Stórkostlega létt að kjötið væri ljúffengt

Aðspurð segist Berglind hafa smakkað vistkjöt í fyrsta skipti í mars á þessu ári, þá einungis búin að vera í mánuð í bransanum. „Mér var stórkostlega létt að það var mjög ljúffengt,“ segir hún og hlær, enda mikilvægt að afurðin sé bragðgóð til þess að þetta verði valkostur sem fólk vill kjósa sér.

Berglind segir jafnframt að í vistkjöti séu öll þau næringarefni sem eru í hefðbundnu kjöti og gefur því ekki mikið fyrir hugmyndir blaðamanns um að vistkjöt sé sambærilegt unnum kjötvörum.

Markaðsleyfi í tveimur löndum

Það er ekki hægt að segja að þróunin á vistkjöti í heiminum hafi verið hröð. Markaðsleyfi hefur einungis verið veitt í tveimur löndum, í Singapúr og Bandaríkjunum, en Berglind segir yfirvöld í mörgum Asíu-löndum búin að taka ákvörðun um að leggja áherslu á þróun vistkjöts og setja þar með pening í þróunina.

Í því samhengi segir hún áhyggjuefni að Evrópusambandið sé eftir á í þróuninni á vistkjöti. „Ég vona að yfirvöld þar fari að taka betur um þennan málaflokk,“ segir Berglind en meðal þess sem hefur valdið vandræðum er að það er ekki ljóst hvernig á að sækja markaðsleyfi í álfunni.

„Þannig að ef ekkert breytist, þá verður Evrópa mjög líklega síðasta heimsálfan til þess að gefa út markaðsleyfi, en vonandi breytist það,“ segir Berglind og bætir við:

„Þetta er nýtt og það þurfa að vera reglugerðir í kringum vistkjöt eins og annað. Yfirvöld eru bara að reyna að ná utan um það hvernig þau tryggja það að þetta sé allt saman í lagi.“

Mikilvægt að taka tækniþróun opnum örmum

Hvenær megum við þá búast við að sjá vistkjöt í verslunum hér á landi?

„Það hvílir svolítið á Evrópusambands reglugerðum, en ég sem Evrópubúi vonast til þess að þetta fari á skrið þar sem nú er komið markaðsleyfi í tveimur löndum,“ segir Berglind sem vonast til þess að Evrópulöndin geti lært af því hvernig Singapúr og Bandaríkin hafa rammað inn reglugerðarumhverfi sitt í tengslum við vistkjötið og umsóknarferlið fyrir markaðsleyfi.

„Það er mikilvægt að taka tækniþróun opnum örmum og sérstaklega tækniþróun sem hjálpar okkur að minnka losun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert