Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að reynt verði að fleyta háhyrningnum sem situr nú fastur í Gilsfirði, út á dýpri sjó þegar flóða tekur á svæðinu á milli klukkan 18 og 19 í kvöld.
Að sögn Jóns Þórs hafa björgunaraðgerðir nú staðið yfir á annan sólarhring, en Björgunarsveitin Ósk í Búðardal, Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík og Björgunarsveit Akraness vinna nú á vettvangi.
„Það er búið að setja belgi utan um hann og segl undir hann. Þarna er fjörðurinn svo grunnur að það verður að reyna að lyfta honum hærra í yfirborðinu,“ segir Jón Þór.
„Síðan stendur til að reyna að fleyta honum út á flóðinu í kvöld og fylgja honum undir rúna og á dýpri sjó þar sem hann gæti hugsanlega synt sjálfur.“