„Ég tel þetta vera rétta niðurstöðu“

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, er ánægður með niðurstöðu úrskurðanefndarinnar.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, er ánægður með niðurstöðu úrskurðanefndarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir niðurstöðu kærunefndar útlendingamála í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd frá Venesúela vera rétta niðurstöðu í málinu og jákvæð tíðindi.

Morgunblaðið greindi frá því í morgun að kærunefndin hefði staðfest álit Útlendingastofnunar um að umsækjendur um alþjóðlega vernd frá Venesúela njóti ekki lengur sjálfkrafa verndar hér á landi.

Tæpur helmingur frá Venesúela

Úrskurður þess efnis var að sögn Morgunblaðsins felldur í máli einstaklings, en Bjarni staðfestir að um sé að ræða úrskurð í þremur málum af samtals yfir 400 sem hafi verið til skoðunar. Úrskurðirnir hafa enn ekki verið birtir opinberlega.

Kostnaður við afgreiðslu umsókna þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd hefur verið talsvert til umræðu undanfarið, en samkvæmt fjármálaáætlun 2024-2028 er gert ráð fyrir að kostnaður við móttöku flóttafólks verði í heild á þessu ári tæplega 14 milljarðar. Samkvæmt tölum Útlendingastofnunar fyrir tímabilið janúar til ágúst á þessu ári nemur heildarfjöldi umsókna um vernd á þessu ári tæplega 3.000. Er fjöldi íbúa Venesúela af þeim 1.244. Hafði þegar 475 þeirra verið hafnað af Útlendingastofnun á árinu, en 49 verið veitt vernd.

Jákvæð tíðindi út frá kostnaðinum

„Auðvitað vonast ég til að við náum tökum á þessum kostnaðarliðum, það er óverjandi að við þurfum að eyða þetta háum fjárhæðum í að annast þessar umsóknir,“ sagði Bjarni við mbl.is eftir ríkisstjórnarfund í morgun.

„Þetta eru mjög jákvæð tíðindi ef við erum að horfa á þetta út frá kostnaðinum. Aðalatriðið er að ég tel þetta vera rétta niðurstöðu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert