„Ég varð svolítið hræddur“

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, fé­lags- og vinnu­markaðsráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, fé­lags- og vinnu­markaðsráðherra. mbl.is/Eyþór

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, fé­lags- og vinnu­markaðsráðherra, segir líkamsárás gegn gesti á ráðstefnu á vegum Samtakanna '78 vera grafalvarlegt mál. Það komi honum hins vegar ekki á óvart að svo hafi orðið miðað við aukna hatursorðræðu í garð hinsegin fólks í samfélaginu.

Ráðist var á gest á ráðstefnunni á þriðjudagskvöld er hann gekk heim af hátíðarkvöldverði. Lögreglan rannsakar málið og segir ekki útilokað að málið verði rannsakað sem hatursglæpur.

„Ég varð eiginlega svolítið hræddur. Mér finnst þetta grafalvarlegt mál. Það kemur kannski ekki á óvart. Það hefur verið aukin hatursorðræða í garð hinsegin fólks og við höfum séð árásir á hinum Norðurlöndunum,“ segir Guðmundur Ingi í samtali við mbl.is. 

Tíðni hatursglæpa verði skráð markvisst

Hann segir mikilvægt að stjórnvöld geti unnið markvisst að því að útrýma hatursorðræðu og hatursglæpum. Til þess þurfi að koma upp skrá um tíðni þeirra, að hverjum þeim beinist og af hvaða meiði þau eru. 

„Með því getum við betur brugðist við með réttum hætti og lært af tölfræðinni,“ segir Guðmundur Ingi. Hann vísar í þingsályktunartillögu forsætisráðherra frá því í fyrra um hatursglæpi og segist vonast til þess að málið verði tekið fastari tökum. Hann viti til þess að forsætisráðherra sé að koma hluta hennar til framkvæmda, þeim hlutum sem ekki þurfa að fara fyrir þingið. 

„Þetta minnir okkur á það að það tekur langan tíma að ná í réttindin en getur tekið stuttan tíma að missa þau eða að orðræðan breytist í þá átt að draga úr sjálfsögðum mannréttindum hópa,“ segir Guðmundur Ingi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert