Mun ekki stuðla að lækkun verðbólgunnar

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, líst ekki á þetta.
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, líst ekki á þetta.

Um mánaðamótin verða breytingar á gjaldskyldu fyrir bílastæði í Reykjavík. Bílastæðagjöld hækka á gjaldsvæði 1 um 40% í miðborginni, þá verður tími gjaldtöku lengdur frá 18 til 21 á virkum dögum og laugardögum og tekin verður upp gjaldskylda á sunnudögum á gjaldsvæðum 1 og 2.

Unnið hefur verið að því síðustu daga að breyta tæplega 300 skiltum í borginni en verðið sjálft tekur breytingum á sunnudaginn hvort sem greitt er í gegnum mæla, öpp eða vef.

Ekkert samráð var í gangi

„Mér líst ekki vel á þetta. Svo umfangsmiklar breytingar verðskulda að sjálfsögðu vandað samráð við borgarbúa og umræður á vettvangi borgarstjórnar. Meirihlutinn beið með að leggja tillögur sínar fram þar til borgarstjórn var farin í sumarfrí og afgreiddi þær síðan með forgangshraða á tveimur dögum. Tillögur Sjálfstæðisflokksins um að fyrirhugaðar breytingar yrðu kynntar fyrir íbúum, íbúasamtökum og rekstraraðilum í miðborginni og þeim gefinn kostur á að segja álit sitt á þeim voru felldar,“ segir Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Kjartan segir að áður hafi meirihlutinn ákveðið að stækka gjaldsvæðið með því að taka upp gjaldskyldu í um 20 íbúagötum í Vesturbænum og Austurbænum. Hann segir að tillaga Sjálfstæðisflokksins um að íbúum viðkomandi gatna yrði gefinn kostur að tjá sig um þær áður en ákvörðun yrði tekin hafi einnig verið felld af fulltrúum meirihlutans.

Mesta hækkun síðan á tímum óðaverðbólgu

Tillagan um breytingu á gjaldskyldu fyrir bílastæði Reykjavíkurborgar sem borgarráð samþykkti í sumar var tvíþætt. Annars vegar breyting á gjaldskrá og hins vegar breyting á gjaldskyldutíma. Tilgangurinn er meðal annars að sem flestir hafi aðgang að bílastæðum í miðborginni því gjaldskyldan stuðlar að færslu bifreiða á svæðinu.

„Á sama tíma og allir stjórnmálaflokkar, Seðlabankinn og fleiri aðilar segja að það verði að halda aftur að gjaldskrárhækkunum í stríðinu við verðbólguna þá er 40% hækkun skellt á bílastæðagjöld sem er mesta hækkun á þessum gjöldum síðan á tímum óðaverðbólgu. Aukin gjaldheimta á Reykvíkinga með 40% hækkun bílastæðagjalda og stækkun gjaldsvæða mun ekki stuðla að lækkun verðbólgunnar heldur hækkun hennar,“ segir Kjartan við mbl.is.

Breytingarnar sem taka gildi á sunnudaginn eru:

  • Á gjaldsvæði P1 hækkar gjald í 600 kr/klst, en gjaldið var áður 430 kr/klst. Þar verður nú einungis heimilt að leggja í þrjár klukkustundir í senn.
  • Gjaldskyldutími á gjaldsvæðum P1 og P2 verður lengdur til klukkan níu á kvöldin, bæði á virkum dögum og á laugardögum.
  • Að auki verður tekin upp gjaldskylda á gjaldsvæðum P1 og P2 milli klukkan tíu á morgnanna og níu á kvöldi á sunnudögum.
  • Gjaldskylda verður ekki á gjaldsvæði P3 á laugardögum.

Handhafar stæðiskorts hreyfihamlaðra leggja gjaldfrjálst í bílastæði hvort sem þau eru merkt hreyfihömluðum eða ekki og gildir hámarkstími á gjaldsvæði P1 ekki fyrir þá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert