Verkalýðshreyfingin stefnir enn á gerð langtímasamnings sem taki við þegar núgildandi samningar á almenna markaðinum renna út í lok janúar á næsta ári.
„Það er uppleggið hjá okkur að við ætlum að reyna að þétta raðirnar og reyna að búa til langtímasamning sem fleiri koma að, þannig að við getum í sameiningu náð þessari verðbólgu niður. Það er markmiðið hjá okkur ennþá,“ segir Finnbjörn A. Hermannsson forseti ASÍ.
Leiðir til að ná niður verðbólgunni munu hafa umtalsverð áhrif á vinnu við undirbúninginn að endurnýjun samninganna og væntanlega kröfugerð verkalýðshreyfingarinnar. „Það verða fleiri en verkalýðshreyfingin að sýna ábyrgð,“ segir Finnbjörn.
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,35% milli mánaða skv. tölum Hagstofunnar í gær og er árshraði verðbólgunnar nú 8%. Finnbjörn segir að fara þurfi í gegnum þessi mál. Ef litið sé á undirliggjandi þætti verðbólgunnar megi sjá að matvaran er stór þáttur í henni. „Hún er að hækka á síðastliðnum 12 mánuðum um 12%. Matvaran vegur 15% í vísitölunni og skiptir náttúrlega verulegu máli. Það á einnig við um húsnæðið. Þetta eru miklir áhrifaþættir í þessari verðbólgumælingu, sem við verður að setjast yfir,“ segir hann.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag, föstudag.