Treystir kærunefnd útlendingamála

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir það liggja fyrir að ákvörðun kærunefndar útlendingamála um að synja þremur umsækjendum frá Venesúela um viðbótarvernd vegna upprunalands sé fordæmisgefandi fyrir þær ákvarðanir sem á eftir koma.

Þar með snúist við fyrri túlkun kærunefndarinnar um að fólk frá Venesúela njóti viðbótarverndar hér á landi.

Margir bíða niðurstöðu í kerfinu 

Spurð að loknum ríkisstjórnarfundi hvað henni finnist um þetta bendir Katrín á að í þessu máli eins og þeim fyrri treysti ríkisstjórnin kærunefndinni til að taka þessar ákvarðanir.

„Þau hafa tekið þessa ákvarðanir sem munu hafa áhrif á framhaldið því við erum með mjög marga einstaklinga frá Venesúela sem bíða hér niðurstöðu í kerfinu. Þetta þýðir á íslensku að fólkið getur ekki sjálfkrafa fengið viðbótarvernd. Þeirra mál eru tekin fyrir á einstaklingsgrundvelli,” segir forsætisráðherra og bætir við að fleiri munu óska eftir aðstoð við sjálfviljuga heimför en áður.

Dómsmálaráðherra kynnti ríkisstjórninni niðurstöðu kærunefndarinnar á ríkisstjórnarfundinum.

Verður þessi ákvörðun kærunefndar afturvirk?

„Ég sé nú ekki forsendur til þess enda er þetta ný ákvörðun sem varðar þau sem á eftir koma,“ segir Katrín. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert