Varðhald í skútumáli framlengt um mánuð

Héraðssaksóknari hefur gefið út ákæru í málinu.
Héraðssaksóknari hefur gefið út ákæru í málinu. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Gæsluvarðhald yfir þremur sakborningum í skútumálinu svokallaða var fyrr í mánuðinum framlengt um tæplega einn mánuð, eða til 12. október. Eru þeir sakaðir um að hafa reynt að smygla 160 kg af hassi til lands­ins með skútu.

Í dag var birtur úrskurður Landsréttar sem staðfesti gæsluvarðhaldsúrskurð héraðsdóms yfir einum mannanna. Arnþrúður Þórarinsdóttir, saksóknari hjá héraðssaksóknara, staðfestir að gæsluvarðhald hafi einnig verið framlengt yfir hinum tveimur í málinu.

Menn­irn­ir voru hand­tekn­ir þann 24. júní og hafa setið í varðhaldi síðan þá, eða í rétt tæp­lega 14 vik­ur. Þeir voru ákærðir fyrr í mánuðinum vegna smyglsins.

Tveir mann­anna eru ákærðir fyr­ir stór­fellt fíkni­efna­brot. Menn­irn­ir, sem voru með 157 kíló af hassi og rúm 40 grömm af marijú­ana í skútu, voru á leið til Græn­lands þar sem þeir eru sagðir hafa ætlað sér að koma efn­un­um til sölu og dreif­ing­ar. Þeir voru hins vegar handteknir um borð í skútunni fyrir utan Reykjanes 24. júní eins og fyrr segir.

Hittu þriðja manninn í fjörunni við Garðskagavita

Þriðji maður­inn er ákærður fyr­ir hlut­deild að fíkni­efna­broti. Maður­inn tók að sér að fljúga frá Dan­mörku, þaðan sem skút­an var sjó­sett, til Íslands, þar sem hann hafði fengið fyr­ir­mæli um að kaupa búnað og vist­ir til verks­ins, auk ann­ars. 

Hann flaug frá Dan­mörku þann 22. júní og hitti ann­an ákærðu í fjör­unni við Garðskaga­vita í Suður­nesja­bæ seint að kvöldi 23. júní. 

Þangað hafði ann­ar ákærðu komið á gúmmíbát frá skút­unni, þar sem maður­inn færði hon­um ýms­ar vist­ir. Þar á meðal bens­ín og ut­an­borðsmótor sem hann hafði út­vegað, allt til þess að gera meðákærðu kleift að halda áfram sigl­ingu sinni með fíkni­efn­in til Græn­lands, að því er fram kem­ur í ákær­u málsins

Vissu af hvor öðrum í 10 ár, en þekktust ekki vel

Annar skipverjinn kærði nýjasta gæsluvarðhaldsúrskurð héraðsdóms til Landsréttar og staðfesti Landsréttur sem fyrr segir áframhaldandi varðhald. Í úrskurðinum eru rök skipverjans útlistuð, en hann segist aðeins hafa verið í bátsferð með hinum skipverjanum. Þeir hafi vitað af hvor öðrum í meira en 10 ár, en ekki þekkst vel. Þá kemur fram að hann hafi komið með flugi frá Grænlandi til Kaupmannahafnar áður en til bátsferðarinnar kom, en að hann vissi ekki hver borgaði það flug fyrir sig.

Bátsferðin hafi svo hafist við Bergen í Noregi og þeir ætlað að sigla í kringum Ísland og þaðan til Danmerkur. Hins vegar hafi þeir lent í stormi og ákveðið að stoppa við Íslandsstrendur og sækja vistir. Hann hafi hins vegar ekkert þekkt til mannsins sem kom með vistirnar, né vitað af fíkniefnum í skútunni.

Fékk 3 milljónir en segist ekki vita frá hverjum

Þá kemur jafnframt fram að lögreglan hafi gögn um að hann hafi keypt skútuna fyrir 150 þúsund danskar krónur í mars, eða sem nemur um þremur milljónum, en maðurinn segir þá upphæð hafa verið lögð inn á hann, en hann vissi ekki hver hafi átt peningana upphaflega.

Dómstólarnir virðast ekki taka mikið mark á rökum skipverjans og er fallist á með ákæruvaldinu að framlengja varðhaldið, enda hafi ákæra verið gefin út í málinu og að hann sé undir sterkum grun um að hafa framið brot sem geti varðað allt að 10 ára fangelsi.

Sá elsti sem ákærður er í málinu er fædd­ur árið 1970 og sá yngsti árið 2002. 

Rann­sókn máls­ins var unn­in í sam­starfi við lög­reglu­yf­ir­völd í Dan­mörku og Græn­landi, en lög­reglu grunaði að fíkni­efn­in hafi verið flutt frá Dan­mörku og að áætlaður áfangastaður hafi verið Græn­land. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert