Áhyggjurnar byggðar á misskilningi

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, segir enga ákvörðun hafa verið tekna …
Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, segir enga ákvörðun hafa verið tekna varðandi Salinn í Kópavogi. Samsett mynd

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, segir áhyggjur Klassís, fagfélags klassískra söngvara á Íslandi, vegna Salarins í Kópavogi vera á misskilningi byggðar og ítrekar að engin ákvörðun hafi verið tekin um að úthýsa rekstri Salarins. 

„Það virðist vera að þau haldi að við séum búin að taka ákvörðun um að úthýsa rekstri salarins en það er alls ekki og af og frá. Við tókum ákvörðun um að skipa starfshóp í apríl sem mun vera með það verkefni að koma með tillögur að því hvernig er hægt að efla starfsemi salarins,“ segir Ásdís í samtali við mbl.is.

Klassís fordæmdi í gær áform Kópavogsbæjar um að bjóða út rekstur Salarins sem hefur verið heimili klassískrar tónlistar að sögn fagfélagsins. 

Aðeins einn liður í margþættu verkefni

Ásdís áréttar að starfshópurinn sé aðeins að skoða möguleikann á því að bjóða rekstur Salarins út og taka saman kosti þess og galla. Hún tekur jafnframt fram að það sé aðeins einn liður í margþættu verkefni starfshópsins. 

„Fyrst og fremst er hlutverk hópsins að koma með tillögur að því hvernig við getum enn frekar eflt starfsemi salarins,“ segir hún en enn á eftir að mynda starfshópinn og reiknar Ásdís með að hann verði settur saman á komandi vikum. 

Ásdís áréttar að Salurinn sé mjög mikilvægur fyrir menningarlíf í bæjarfélaginu og ítrekar að hér sé ekki verið að boða einhvers konar niðurskurð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert