Heimsótti færanlegt neyðarsjúkrahús

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Hanno Pevkur, varnarmálaráðherra Eistlands, …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Hanno Pevkur, varnarmálaráðherra Eistlands, skoðuðu færanlega neyðarsjúkrahúsið sem afhent verður Úkraínu í nóvember. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Tveggja daga opinberri vinnuheimsókn Þórdísar Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra til Eistlands lauk í gær. Meðal annars skoðaði hún uppsetningu á færanlegu neyðarsjúkrahúsi sem kostað er af íslenskum stjórnvöldum og verður afhent Úkraínu í nóvember, en sjúkrahúsið er hannað og framleitt í Eistlandi.

Á vef Stjórnarráðsins er greint frá því að Þórdís Kolbrún fundaði með Margus Tsahkna utanríkisráðherra og Hanno Pevkur varnarmálaráðherra. Auk þess kynnti ráðherra sér starfsemi netöryggisseturs Atlantshafsbandalagsins í Tallin. 

Þórdís Kolbrún og Pevkur.
Þórdís Kolbrún og Pevkur. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Tvíhliða samskipti ríkjanna, stuðningur við Úkraínu, þróun öryggismála og vaxandi samvinna Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna voru efst á baugi á fundi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra með utanríkisráðherra Eistlands,“ segir í tilkynningunni. 

Þórdís Kolbrún og Pevkur heimsóttu borgina Tartu þar sem unnið er að uppsetningu færanlega neyðarsjúkrahússins. 

„Sjúkrahúsið mun koma að góðum notum við að bjarga lífum og lina þjáningar þeirra sem leggja líf sitt og heilsu undir til þess að verja Úkraínu gegn rússneska innrásarliðinu. Við erum þakklát fyrir að geta með þessum hætti stutt við réttmæta varnarbaráttu Úkraínu, en því fylgir auðvitað sorg að hugsa til þess óréttlætis sem úkraínska þjóðin sætir af hendi Rússlands. Við höfum unnið að þessu verkefni í framúrskarandi samstarfi við Eista og Þjóðverja, en þeir leggja til ökutæki til að flytja sjúkrahúsið milli staða, en það er mjög stórt framlag, sem við erum þakklát fyrir,“ er haft eftir Þórdísi Kolbrúnu. 

Á næstu vikum hefst þjálfun fyrir teymi frá Úkraínu, sem kemur til með að reka spítalann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka