Aldan hreif mig með sér út á haf

Ljósmyndarinn Brendan de Clercq kom hingað til landsins til að …
Ljósmyndarinn Brendan de Clercq kom hingað til landsins til að miðla af reynslu sinni, en hann hefur komist í hann krappan á Íslandi. mbl.is/Ásdís

Á fallegum haustdegi í vikunni lagði blaðamaður leið sína á hótel í Reykjavík til fundar við ljósmyndarann Brendan de Clercq. Hann var hingað kominn frá Hollandi til að hitta íslenska ljósmyndara og miðla af reynslu sinni, en Brendan veit sitthvað um fagið eftir langan feril. Brendan virðist hinn mesti töffari en fljótlega er ljóst að hann er tilfinningaríkur maður sem hefur kynnst bæði slæmum og góðum hliðum lífsins.

Ég er tilfinningaríkur náungi

Portrett eru það ljósmyndaform sem heillar Brendan mest.

„Ég mynda mikið í svarthvítu, en get það ekki alltaf því það hentar ekki öllum kúnnum. Ég elska götuljósmyndun og fer mikið út á meðal fólks að mynda. Mér finnst gaman að blanda því saman við portrettmyndir; að nota andrúmsloftið úr götuljósmyndun í portrettmyndatökum,“ segir hann og segist einmitt hafa hitt ljósmyndarann íslenska Pál Stefánsson og voru þeir sammála um marga hluti.

Þessa mynd tók Brendan í heimsókn sinni til Íslands, en …
Þessa mynd tók Brendan í heimsókn sinni til Íslands, en portrett eru í uppáhaldi hjá honum. Ljósmynd/Brendan de Clercq

„Við höfðum sömu skoðanir á ljósmyndun; það var líkt og að horfa í spegil að tala við hann. Við ræddum einnig um rammann og hvorugur okkar sker myndir sínar heldur birtast þær eins og þær voru teknar. Myndir mínar snúast um tilfinningu því ég er tilfinningaríkur náungi, og þær eru marglaga,“ segir hann og segist yfirleitt aldrei taka myndir af brosandi fólki.

„Ég vil hafa ákveðna sorg yfir myndunum.“

Ég var að frjósa

Brendan hefur áður komið til Íslands og var þá í för með tveimur dýralífsljósmyndurum. Hann komst heldur betur í hann krappan í Reynisfjöru og það á ísköldum febrúardegi.

„Borgarbarnið frá Amsterdam mætti hingað bara í einni úlpu. Og sjórinn tók mig en skilaði mér aftur upp á land,“ segir hann og lýsir atburðarásinni.

„Ég stóð í fjörunni með myndavélina og allt gerðist svo snögglega. Aldan hreif mig með sér út á haf og spýtti mér aftur á land. Ég ofkældist alveg um leið og það var svo kalt; enda hávetur. Ég var svo alveg að frjósa og þurfti að komast í bílinn. En ég lifði af. Þetta var algjör vakning fyrir mig og ég áttaði mig á því að það er náttúran sem ræður,“ segir hann og segist ekki hafa haft tíma til að hugsa um dauðann á þessum stutta tíma sem hann var í sjónum. Þegar hann lenti aftur á ströndinni hélt hann enn á myndavélinni.

„Ísland kenndi mér lexíu. Náttúran sýndi mér hvað ég er lítill. Myndavélin og náttúran hafa kennt mér lífsins lexíur.“

Ítarlegt viðtal er við Brendan í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert