Hef þegar lýst óánægju minni

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. mbl.is/Sigurður Bogi

„Ég hef þegar lýst óánægju minni við dómsmálaráðherra og hef ítrekað þá ósk að staðan verði auglýst,“ segir Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, við mbl.is þegar leitað var eftir viðbrögðum hennar með þá ákvörðun dómsmálaráðherra að Kristín Þórðardóttir, sýslumaður á Suðurlandi, hafi verið sett tímabundið í embætti Sýslumanns í Vestmannaeyjum.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu var einnig greint frá því að ákvörðunin um að setja hana tímabundið í embættið væri í takt við áherslur ráðherra um að fella niður áhrif umdæmismarka gagnvart almenningi og að ekki yrði skipað í embætti sem væru að losna, heldur myndu aðrir sýslumenn vera settir í þau. Með því er í raun verið að fækka sýslumannsembættunum.

Snýst ekki um persónur og leikendur

Kristín mun gegna báðum embættum frá 1. október til 30. september á næsta ári en Arndís Soffía Sigurðardóttir, sem var skipuð í embætti sýslumanns í Vestmannaeyjum þann 1. apríl 2020, óskaði eftir lausn frá embættinu.

„Ráðherrann ætlar að koma og hitta bæjarstjórn í vikunni og við tökum samtalið við hann þá. Við viljum að það sé sýslumaður í Vestmannaeyjum. Þetta snýst ekkert um persónur og leikendur,“ segir Íris.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert