Munar um myllur

Spaðarnir snúast á myllunum sem eru alveg við Þykkvabæjarveg.
Spaðarnir snúast á myllunum sem eru alveg við Þykkvabæjarveg. mbl.is/Sigurður Bogi

Framleiðslugeta tveggja vindmylla sem settar hafa verið upp í Þykkvabæ er um 1,8 MW og er það eina viðbótin sem einhverju nemur sem kemur inn á raforkukerfi landsins í ár. Þetta segir Ásgeir Margeirsson stjórnarformaður Háblæs ehf. sem stendur að þessu verkefni.

Fyrir um áratug voru reistar vindmyllur í Þykkvabæ sem brunnu og voru að lokum felldar. Eftir stóð þá deiliskipulag og innviðir sem hægt var að byggja á. Turnar nýju myllanna eru þó talsvert lægri en þeirra fyrri en framleiðslugetan meiri.

Ásgeir Margeirsson segir að á síðustu árum hafi aukningin í raforkuframleiðslu landsins verið lítil, enda þótt eftirspurnin sé mikil. Viðbótin sé Brúarvirkjun í Biskupstungum og stækkun Reykjanesvirkjunar, hvort tveggja verkefni sem HS Orka leiddi. Viðbótin inn á raforkukerfið sl. fimm ár sé 50-60 MW, enda þótt markaðurinn þurfi meira. Hugsanlegt er að til orkuskorts komi í vetur sé tekið mið af stöðu í uppistöðulónum. Þekkt er við slíkar aðstæður að fiskimjölsverksmiðjur og rafkyntar hitaveitur fái ekki rafmagn í þeim mæli sem þarf.

„Atvinnu- og verðmætasköpun hefur í mörgum tilvikum ekki hlotið framgang en hægagangur í uppbyggingu virkjana og háspennulína stafar aðallega af þungu kerfi sem gerir ferla erfiða, tímafreka og kostnaðarsama. Langan tíma tekur að afla allra heimilda og leyfa fyrir framkvæmdum. Afgreiðslufrestur mála á ýmsum stigum leyfisveitinga er gjarnan ekki virtur og svo virðist sem ekki verði veruleg viðbót í orkuframleiðslu landsins á næstu 2-4 árum,“ segir Ásgeir.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert