Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði í dag frá ákæru héraðssaksóknara á hendur Sindra Snæ Birgissyni og Ísidóri Nathanssyni er varðar undirbúning hryðjuverka í hryðjuverkamálinu svokallaða.
Þetta staðfestir Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara, í samtali við mbl.is. RÚV greindi fyrst frá.
Auk hryðjuverkaákærunnar var krafist frávísunar á hluta upptökukröfu fyrri ákærunnar. Héraðsdómur féllst þó aðeins á að vísa frá ákærunni er varðaði undirbúning hryðjuverka.
Þetta mun vera í annað skiptið sem héraðsdómur vísar frá ákærulið er varðar skipulagningu hryðjuverka í sama máli. Í kjölfar þess að ákæruliðnum var vísað frá í fyrra skiptið lagði embætti héraðssaksóknara fram nýjar ákærur þar sem samskipti milli Sindra Snæs og Ísidórs voru rakin með nákvæmari hætti.
Karl Ingi kvaðst ekki vera búinn að lesa úrskurðinn þegar mbl.is náði tali af honum, og vildi ekki tjá sig frekar um hann að svo stöddu.
Embættið hefur þrjá sólarhringa til að taka ákvörðun um hvort úrskurðurinn verði kærður til Landsréttar.
„Við munum leggjast yfir úrskurðinn og taka svo ákvörðun í framhaldinu.“