Á hverju ári greiða íslenskir neytendur samtals um 13,3 milljarða í „bullgjöld“ í tengslum við fjármálastarfsemi hér á landi að mati Hauks Skúlasonar, framkvæmdastjóra og annars stofnanda sparisjóðarins Indó.
Hann segir þessi gjöld ýmiss konar, en að stærsti hluti þeirra sé svokallað gjaldeyrisálag sem fólk borgi í álag af erlendum greiðslum og gjaldeyrisviðskiptum.
Þetta kom fram í máli hans á fundi um nýútkomna skýrslu um gjaldtöku og arðsemi bankanna sem Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, lét gera.
Haukur sagði að eðlilegt væri að bankar hefðu tekjur og skiluðu hagnaði, líkt og önnur fyrirtæki. Hann sagði einnig að almenningur hefði skilning á því og vísaði í skoðunarkönnun sem gerð var á sínum tíma fyrir hvítbók um fjármálakerfið. Benti Haukur á að þar hefðu svarendur sagt að bankakerfið þyrfti að vera sanngjarnt og heiðarlegt, en lítið var talað um að eitthvað þyrfti að vera ókeypis.
Haukur er sem fyrr segir í forsvari fyrir sparisjóðinn Indó, en hann fékk í fyrra starfsleyfi frá fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands. Er sparisjóðurinn í dag með launareikninga og sparireikninga, en Haukur sagði að stefnt væri að því á komandi misserum að bjóða einnig upp á útlán. Indó hefur byggt upp ímynd sína sem svokallaður áskorendabanki, en það er heiti yfir banka sem reyna að skora viðskiptamódel hefðbundinna banka á hólm. Í dag er fjöldi viðskiptavina sparisjóðsins að sögn Hauks kominn upp í 40 þúsund.
Í máli Hauks á fundinum og í auglýsingum fyrirtækisins frá opnun má ljóst vera að þar er sjónum að miklu leyti beint að gjöldum ýmiss konar hjá stóru viðskiptabönkunum. Í máli sínu sagðist Haukur tala um „bullgjöld“ í þessu samhengi og sagði hann að varfærin áætlun sín gerði ráð fyrir að þessu gjöld næmu samtals 13,3 milljörðum króna árlega.
Sagði hann þessi „bullgjöld“ í raun vera kostnað sem lagður væri á neytendur í fjármálakerfinu án þess að neinn kostnaður kæmi á móti og því væri þetta eins og „peningur sem er tekinn upp af götunni“ fyrir fjármálastofnanir.
Í skýrslunni sem fundurinn snerist um kom meðal annars fram að heildarkostnaður af notkun greiðslukorta væri meiri fyrir samfélagið en af notkun reiðufjár. Tengdist þetta inn í ræðu Hauks um fyrsta gjaldaflokkinn sem hann nefndi, en það eru svokölluð „interchange-gjöld“.
Sagði hann að þau hefðu numið samtals 3,5 milljörðum á síðustu 12 mánuðum. Þetta væru gjöld sem komi í gegnum notkun korta, en samtals fá bankar 0,2% af allri veltu debitkorta og 0,3% af veltu kreditkorta. Sagði hann neytendur í raun greiða þennan kostnað í formi hærra vöru- og þjónustuverðs. Ólíkt öðrum flokkum, sem Haukur sagði engan kostnað á bak við, þá sagði hann þessi gjöld vera ætluð til þess að reka kortakerfið.
Næsti flokkur var gjaldeyrisálagið. Þar er átt við álag banka á gjaldeyrisviðskipti, mun á sölu- og kaupgengi í gjaldeyrisviðskiptum og sérstaklega þegar ekki eru notaðar bankamillifærslur. Sagði hann að almennt væru bankar að notast við um 2,5% álag, en að hann hefði séð dæmi um hærra hlutfall. Sagði hann að varlega áætlað væri þetta gjaldeyrisálag að kosta íslenska neytendur samtals um 7,2 milljarða árlega.
Rifjaði hann upp að þegar Indó var að byrja rekstur hafi aðilar frá öðrum fjármálastofnunum spurt hann hvað Indó ætlaði að vera með sem gjaldeyrisálag og þegar hann sagði að Indó ætlaði ekki að vera með neitt álag hafi fólk ekki skilið þá. „En það er enginn kostnaður“ sagði Haukur til að réttlæta þessa ákvörðun.
Þriðji flokkurinn er svo árgjöld korta. Sagðist Haukur aftur hér telja að hann væri að vanáætla upphæðina umtalsvert. Sagðist hann miða við fjögur þúsund króna árgjald kreditkorta, en það væri í raun lægsta gjaldið sem hægt væri að fá. Þetta gaf honum samt tekjur upp á 1,5 milljarða bæði fyrir kredit- og debetkort. Aftur sagði hann þetta vera gjald án kostnaðar og bættist við önnur gjöld á greiðsluþjónustu.
Fjórði flokkurinn er svo færslugjöld á debetkortum. Sagði Haukur að upphaflega hafi hann talið þetta aðalatriðið í kostnaði sem fjármálafyrirtæki fengju úr greiðsluþjónustu. Svo væri þó ekki, enda væru áætlaðar tekjur af þessum lið um 1 milljarður. Aftur sagði Haukur að enginn kostnaður væri á móti þessum gjöldum.
Fimmti og síðasti flokkurinn er svo seðilgjöld á kreditkortareikninga. Haukur sagði flesta kannast við þetta, en þarna væri jafnan nokkur hundruð krónum bætt við kreditkortareikninga fyrir þá þjónustu að bankar birti viðskiptavinum sínum reikning í netbanka.
„Verið að borga bankanum fyrir að segja mér hvað ég skulda honum,“ sagði Haukur í hneykslunartón.
Hann sagði neytendur oft eiga erfitt með að skynja þessar tölur, en til að setja þær í samhengi benti hann á að allur „bullkostnaðurinn“ upp á 13,3 milljarða væri hærri upphæð en ríkið veitir árlega til allrar starfsemi menningarstofnana ár hvert.
Þá sagði hann að rekstur allra sjúkrahúsa landsins, fyrir utan stóru háskólasjúkrahúsin, væri rétt meiri en þessi kostnaður. Þriðja viðmiðið væri að gjöldin væru rúmlega helmingur allra barnabóta sem greiddar eru á hverju ári.
Samtals sagði Haukur að meðalfjölskylda væri að greiða tæplega 6 þúsund á mánuði í þessi „bullgjöld“, en það svarar til rúmlega 71 þúsund á ári.