Hægt hefur á landrisinu í Öskju frá því í byrjun ágúst. Þetta segir í tilkynningu frá Veðurstofunni.
Rúm vika er síðan Morgunblaðið greindi frá því að dregið hefði úr landrisinu.
„Það hefur rólega dregið úr risinu á þessum tveimur stöðvum. Þær eru komnar nokkuð nálægt því að nema staðar, en ekki samt alveg – þær eru enn á uppleið,“ sagði Benedikt Gunnar Ófeigsson, sérfræðingur Veðurstofunnar í jarðskorpuhreyfingum, þá í samtali við blaðið.
„En svo er önnur stöð, sem er í miðjunni á þessu öllu saman – við Ólafsgíga, og hún sýnir ekki neina breytingu. Sömuleiðis sést engin skýr breyting á stöðinni í Jónsskarði, sem er líka inni í öskjunni. Að minnsta kosti ekki enn,“ sagði Benedikt.
Í tilkynningu Veðurstofunnar nú síðdegis segir að þessi breyting á landrisinu hafi verið á meðal umræðuefna á stöðufundi sérfræðinga stofnunarinnar, Háskóla Íslands og almannavarna. Ekki kemur fram hvenær fundurinn var haldinn.
Tekið er fram að á nokkrum GPS-mælum við Öskju hafi ekkert landris mælst frá því í lok ágúst.
Á sama tímabili séu engar vísbendingar um aukna jarðskjálftavirkni eða óeðlilegar breytingar á jarðhitavirkni í Öskju.
„Á þessari stundu er ekki ljóst hvað veldur þessari breytingu á þenslunni, en mögulega hefur innflæði kviku stöðvast eða að kvikan hefur fundið annan farveg sem dregur úr kvikuþrýstingi undir eldstöðinni,“ segir í tilkynningu Veðurstofunnar.
Bent er á að reglulegar mælingar við Öskju hafi áður sýnt tímabil sem einkennast af landsigi og eitt tímabil sem einkenndist af landrisi án þess að til eldgoss hafi komið.
Á þessu stigi sé ekkert hægt að fullyrða um hvernig málum muni fram vinda. Unnið verði frekar úr þeim gögnum sem liggja fyrir til þess að reyna að útskýra hvað veldur breytingunum.
Loks segir að nýrri skjálftastöð hafi verið bætt við í síðustu viku, vestan við Öskju, til að bæta ákvörðun staðsetningar og dýptar jarðskjálfta.
Benedikt sagði í síðustu viku að erfitt væri að túlka þessar mælingar svo vel væri. Skrýtið væri að svo nálægar stöðvar sýndu jafn ólík merki.
„Við klórum okkur aðeins í hausnum yfir þessu. Af hverju breytingin sést bara á tveimur stöðvum en ekki öllum. Það mun taka svolítinn tíma að sjá hvað þetta þýðir og hvað það er í raun sem á sér stað þarna.“