Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir kvenréttindabaráttu á Íslandi enn eiga langt í land, en BSRB er á meðal 31 samtaka sem standa fyrir allsherjarverkfalli kvenna og kvára þriðjudaginn 24. október.
Að sögn Sonju dreymir skipuleggjendur verkfallsins um að verkfallið í ár verði ennþá stærra en allsherjarverkfallið á kvennafrídeginum árið 1975, þegar um 90% kvenna á Íslandi lögðu niður störf til að sýna fram á mikilvægi kvenna á vinnumarkaði og innan samfélagsins.
„Hugmyndin að því að halda kvennaverkfall í ár kviknaði í kringum 40 ára framboðsafmæli Kvennalistans. Þá var haldið málþing þar sem var verið að ræða hvað hefur áunnist en líka hvað er eftir,“ segir Sonja.
Hún segir að á málþinginu hafi ríkt samstaða um það að baráttan ætti enn langt í land.
„Af því að kvennafrídagurinn er sameign samtaka kvenna og hinseginfólks og samtaka launafólks þá einmitt bárum við upp þá spurningu hvort það ætti að halda kvennaverkfall. Svarið var mjög afdráttarlaust „já“ vegna þess að það finna allir fyrir því sama, upplifa þessa stöðnun og að þetta gangi ekki nægilega hratt. Það ætlar enginn að bíða lengur,“ segir Sonja.
Sonja segir meginkröfur kvennaverkfallsins í ár vera tvær: að útrýma öllu kynbundnu ofbeldi og að leiðrétta vanmat á svokölluðum kvennastéttum.
Með kvennastéttum sé átt við starfstéttir þar sem konur eru í miklum meirihluta og hafi rannsóknir sýnt að meginástæðan fyrir launamuni kynjanna sé sú að þessum stéttum séu greidd lægri laun en öðrum stéttum á vinnumarkaði. Þá séu þessar stéttir jafnvel á lægstu launum á vinnumarkaði.
„Ef við tökum stökkið að leiðrétta þetta, taka þessar stéttir sérstaklega fyrir og leiðrétta vanmatið a þeim í launum, þá erum við að taka svo stórt stökk í áttina að því að útrýma launamuni kynjanna,“ segir Sonja.
Að sögn Sonju er kynbundið ofbeldi útbreitt á Íslandi og verður að grípa til aðgerða sem samræmist tíðni ofbeldisins.
„Fyrst og fremst er verið að horfa til þess að hvað kynbundið ofbeldi er útbreitt, en við sjáum að allavega 40 prósent kvenna hafa orðið fyrir einhvers konar ofbeldi á lífsleiðinni. Það hefur löngum verið mikil áhersla á að sjálfsögðu að styðja við konur og kvár sem hafa orðið fyrir kynbundnu ofbeldi en það hefur minni áhersla verið á gerendur og hvernig við ætlum að stöðva gerendur.
Svo er náttúrulega alltaf spurningin um hvað við ætlum að gera sem samfélag öll til þess að stöðva þetta og til þess að grípa inn í þannig að gerendur fái ekki bara að komast upp með þetta og að það séu engar afleiðingar fyrir þá heldur bara þolendur.“
Í ár verður kvennafrídagurinn haldinn með svipuðu sniði og árið 1975, þegar konur lögðu niður störf í heilan dag.
„Það var ákveðið, af því að frá kvennafríinu árið 2005 og þeim sem hafa verið haldið eftir það hefur verið reiknaður tími þar sem konur áttu að ganga út. Við ákváðum að hverfa frá því vegna þess að megináherslan er ofbeldi þannig að við vildum ýta undir það að við erum ekki bara að tala um launamuninn núna, við erum líka að tala um ofbeldi og ætlum að hafa þetta heilsdagsverkfall eins og var árið 1975,“ segir Sonja.
Þá verður einnig lögð sérstök áhersla á ávarpa málefni kvára í ár. „Þetta er í fyrsta sinn sem að málefni kvára eru sérstaklega ávörpuð. Þau hafa að sjálfsögðu alltaf verið velkomin en nú erum við að taka þetta skrefinu lengra svo þau upplifi sig raunverulega velkomin af því að þau eru líka undirskipuð af feðraveldinu alveg eins og konur. Þannig að þó að kvár séu ekki konur búa þau við sama kynjakerfi og konur,“ segir Sonja.
„Markmiðið er raunverulega að bjóða fólki af öllum kynjum sem er undirskipað af hálfu feðraveldisins og að við fléttum saman baráttur okkar.“