„Það er sláandi að sjá þetta“

Guðlaugur Þór Þórðarson er með böggum hildar yfir utanvegaakstri hins …
Guðlaugur Þór Þórðarson er með böggum hildar yfir utanvegaakstri hins þýska Pete Ruppert í Þjórsárverum.

„Við lítum þetta mjög alvarlegum augum og ég kallaði eftir upplýsingum um þetta strax og ég sá þetta,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, í samtali við mbl.is um utanvegaakstur hins þýska Pete Ruppert á fjórtán tonna þungu ökutæki, Mercedes-Benz Zetros, um friðlýsta náttúru, meðal annars Þjórsárver, en Þjóðverjinn kallaði Íslendinga smánarblett á sköpunarverki drottins svo sem lesa má um hér:

Segir ráðherra enga sérfræðinga þurfa til að sjá að Ruppert fór mjög glæfralega um landið í för sinni. „Þarna eru menn á gríðarlega stórum trukk á viðkvæmu svæði og það segir sig sjálft að þarna er ekki farið fram með þeirri virðingu og varkárni sem ber að viðhafa á svæði sem þessu, þetta eru Þjórsárverin okkar,“ segir Guðlaugur og bætir því við að skoða þurfi málið í samhengi við friðlýsingarskilmála Þjórsárvera.

Ævintýramaðurinn Pete Ruppert festi 14 tonna Mercedes-Benz á hálendinu en …
Ævintýramaðurinn Pete Ruppert festi 14 tonna Mercedes-Benz á hálendinu en Umhverfisstofnun hefur auk þess borist fjöldi ábendinga og mynda af akstri hans utan vega. Skjáskot/Youtube

Tökum vel á móti ferðamönnum

„Svo er það nú þannig, og ég hef haft af því áhyggjur, að aðilar sem ganga svona fram og þekkja lítið til – þetta er nú ekki einsdæmi – vita ekki að helsta ógnin við hálendið er umferð á borð við þessa. Við tökum auðvitað vel á móti ferðamönnum og fólki sem heimsækir landið, þeir Íslendingar sem ferðast um landið og hafa gert um áratugi bera upp til hópa virðingu fyrir náttúrunni, maður heyrir ekki miklar kvartanir af þeim á þessum vettvangi,“ segir ráðherra.

Ítrekar hann að lokum að málið sé litið alvarlegum augum í ráðuneytinu. „Það er sláandi að sjá þetta, þarna er vegið að ósnortinni náttúru og þeirri miklu fjölbreytni sem hún geymir,“ segir Guðlaugur Þór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert