„Þetta var hægt fyrir 20 árum“

Það var ekki mjög fjölmennt á kynningarfundi Vegagerðarinnar í kvöld.
Það var ekki mjög fjölmennt á kynningarfundi Vegagerðarinnar í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Það verður mjög spennandi að sjá hvort þeim tekst að koma veginum fyrir. Það er búið að byggja alls staðar fyrir hann. Ég er ekki bjartsýnn á að margir núlifandi Íslendingar fái að prófa þennan veg,“ segir Guðni Ársæll Indriðason, bóndi í Laufbrekku og varaformaður íbúasamtaka Kjalarness. 

Guðni var einn þeirra sem sóttu kynningarfund Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar í Klébergsskóla á Kjalarnesi í kvöld. Þar var kynnt matsáætlun vegna umhverfisáhrifa Sundabrautar og fyrirhugaðar aðalskipulagsbreytingar.

Vegagerðin, í samvinnu við Reykjavíkurborg, vinnur að undirbúningi Sundabrautar frá Sæbraut að Kjalarnesi en markmið framkvæmdarinnar er að bæta samgöngur fyrir alla ferðamáta, dreifa umferð, bæta tengingar við og innan höfuðborgarsvæðisins, stytta akstursleiðir og ferðatíma og minnka þannig útblástur og mengun. Áætlaður framkvæmdatími er á árunum 2026-2031.

„Þetta var ósköp rólegt og yfirvegað,“ sagði Guðni þegar mbl.is náði tali af honum eftir fundinn en auk fulltrúa Vegagerðarinnar voru fulltrúar frá verkfræðistofunnar EFLU, sem er ráðgjafi í Sundabrautarverkefninu.

Hér má sjá áhrifasvæði Sundabrautar.
Hér má sjá áhrifasvæði Sundabrautar. Ljósmynd/Vegagerðin

Víða orðið mjög þröngt

„Það er byrjað að undirbúa umhverfismatið og aðalskipulagsbreytingu en ég er ekkert viss um að þetta verkefni komist til framkvæmda með þessum hætti. Það er víða orðið mjög þröngt,“ segir Guðni um áformin sem kynnt voru. 

Hann bendir á að fara þurfi yfir nýju ruslahaugana í Álfsnesi og að einnig þurfi að taka land í Gufunesi.

„Þar er orðið ansi þröngt. Það er búið að byggja upp í veglínuna eða jafnvel inn í hana. Þá er brött og mikil mikil brekka upp á Strandveg og ég veit ekki alveg hvar þeir ætla að koma veginum fyrir. Þeir ætla kannski að sprengja í burtu brekkuna og Strandveginn með. Svo eru göng í Grafarvoginum einn möguleikinn og þeir eru með það í huga. Kannski verður það niðurstaðan,“ segir Guðni.

Frá kynningarfundinum í Klébergsskóla í kvöld.
Frá kynningarfundinum í Klébergsskóla í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Búið að byggja alls staðar fyrir veginn

Guðni segir að nú verði þessir kostir metnir bæði út frá umhverfismati og út frá aðalskipulagi hvað verði hægt að gera. Hann segir spennandi að sjá hvort Vegagerðinni takist að koma veginum fyrir, búið sé að byggja alls staðar fyrir hann. 

„Það er einhvern veginn búið að koma hlutunum þannig fyrir. Þetta var hægt fyrir 20 árum en svo spyr maður sig í dag fer þessi vegur að skipta einhverju máli nema bara þá að það komi brú frá Gufunesinu yfir í miðbæinn. Ég fór að skoða þetta í fyrra þar sem vegurinn á að koma að landi. Það er búið að byggja þarna hús fyrir bíllausan lífstíl og ef Sundabrautin kemur þarna þá er hún bara fyrir framan dyrnar hjá þeim,“ segir Guðni.

Næsti kynningarfundur Vegagerðarinnar verður í Langholtsskóla á morgun og í Rimaskóla á fimmtudaginn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert