Undirritaður hefur verið þríhliða samningur milli Sjúkratrygginga Íslands, VIRK starfsendurhæfingarsjóðs og Janusar endurhæfingar ehf. um samþætta og þverfaglega heilbrigðis- og starfsendurhæfingarþjónustu við ungt fólk á aldrinum 18 til 30 ára með flókinn og fjölþættan vanda.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Heilbrigðisráðuneyti, Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
Þar segir að samningurinn tryggir þjónustu fyrir 80 einstaklinga sem falla undir skilgreiningu NEET, þ.e. sem eru ekki í vinnu, virkni eða námi og þurfa sérhæfða einstaklingsmiðaða þjónustu til að efla virkni og starfsgetu. Gert er ráð fyrir að árlegt fjármagn til þjónustunnar nemi um 330 milljónum króna.
„Markmið þessa samnings er skýrt og mikilvægt. Að hjálpa þessu unga fólki til að ná upp virkni og getu. Auka lífsgæði þess og opna fyrir því möguleika til að njóta sín betur í framtíðinni. Hér er stigið mikilvægt skref í samþættingu heilbrigðis- og félagsþjónustu og það er óhætt að segja að við munum öll vinna ef vel tekst til,“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra í tilkynningunni.