Niðurstaða um stærð og rúmmál hraunsins, sem varð til á Reykjanesskaga í sumar, liggur nú fyrir.
Flatarmál hraunsins er alls 1,5 ferkílómetrar og er það 15,5 milljónir rúmmetra að rúmmáli.
Jarðvísindamenn við Háskóla Íslands reisa þetta mat á myndum sem fengust úr Pleiades-gervitunglinu þann 20. ágúst, eða um 15 dögum eftir að gosinu lauk.
Mælingar sem gerðar voru 31. júlí leiða einnig í ljós að hraunrennslið síðustu daga gossins var mjög lítið, eða að meðaltali 0,7 rúmmetrar á sekúndu frá þeim degi og til gosloka 5. ágúst.
Meðalþykkt hraunsins er talin vera tíu metrar. Mesta þykkt utan gígsins er norðaustan við Litla-Hrút, 28-30 metrar, en hraunið nær einnig 24 metra þykkt í dalverpinu sem fylltist austan Kistufells og í norðausturhorni Meradala.
„Gosið við Litla-Hrút stóð í 26 daga. Hvað stærð og hegðun varðar var það mjög líkt gosinu í ágúst 2022. Byrjun gossins í sumar var heldur öflugri en í 2022 en eins og þá dró jafnt og þétt úr því þar til það fjaraði alveg út eftir hádegi 5. ágúst,“ segir á vef Jarðvísindastofnunar HÍ.
„Hraunið er 3,7 km á lengd og náði lengst 3,3 km frá gígnum, í austanverðum Meradölum. Þetta er mjög svipað og í gosinu 2021, en sú samlíking er þó villandi þegar hugað er að því hvað aðstæður fyrir útbreiðslu hrauns voru ólíkar.
Litla-Hrútshraunið rann að miklu leyti óhindrað undan halla og fylling lokaðra dala eða dælda stýrði framgangi þess ekki nema að litlu leyti. Hraunið frá 2021 var tífalt stærra að rúmtaki og meðalþykkt þess um þrefalt meiri, eða 30 metrar. Það rann að mestu leyti inn í lokaða dali og fór langt með að fylla þá: Geldingadali, Nátthaga og Meradali.“
Tekið er fram að magn þeirrar kviku sem kom upp í gosinu í ár sé um þriðjungi meiri en í gosinu í fyrra, en bæði teljast gosin mjög lítil.
Samanlagt rúmmál hrauns úr gosum síðustu þriggja ára er talið nema 175-180 milljónum rúmmetra.
Hvað samsetningu kvikunnar varðar er bent á að engar marktækar breytingar hafi orðið á efnasamsetningu hraunsins frá því gosið við Litla-Hrút hófst 10. júlí.
„Hraunkvikan líkist mjög þeirri bráð sem gaus í Meradölum í fyrra en er ólík þeirri sem kom upp fyrstu mánuðina í Geldingadölum 2021.“
Áður hefur Morgunblaðið greint frá því að kvikan í upphafi fyrsta gossins í mars árið 2021 hafi verið ólík þeirri sem á eftir hefur komið. Sú kvika sem hefur verið ráðandi síðan er þannig ólík öllu öðru hrauni sem rannsakað hefur verið á Reykjanesskaga, og líkist í raun mest því hrauni sem finnst í nágrenni Öskju og Veiðivatna.
„Minnkandi rennsli á einsleitri kviku, líkt og var tilfellið við Litla-Hrút nú í sumar, er hægt að skýra með tæmingu á einangruðum kvikugeymi sem ekki endurhleðst af kviku úr möttli. Gosið í fyrra hegðaði sér með sama hætti, þó það stæði heldur skemur.
Þróun gosanna 2022 og 2023 var mjög ólík 2021-gosinu þegar kvikan streymdi beint úr möttli til yfirborðs og kvikuframleiðnin jókst eftir því sem leið á það gos.“