Vill bankaskýrslur árlega til að auka aðhald

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, telur að vinna eigi skýrslur árlega um gjaldtöku og arðsemi íslensku bankanna með það að markmiði að auka aðhald með verðlagningu og vaxtamun bankanna. Þetta kom fram í máli Lilju á fundi ASÍ, BSRB, BHM og Neytendasamtakanna um nýútkomna skýrslu um þetta málefni, en það var Lilja sem óskaði eftir skýrslunni.

Lilja sagði á fundinum að ástæða þess að hún hafi óskað eftir skýrslunni væri sú að þörf væri á að geta borið saman epli og epli í umræðunni um íslenska fjármálakerfið. Sagði hún að oft færi umræðan um fjármálakerfið strax yfir í að ekki væri hægt að bera íslensku bankana saman við erlenda banka þar sem íslensku bankarnir væru mun minni.

Hún hafi hins vegar talið að hægt væri að bera saman íslensku bankana við sambærilega banka erlendis og fara í grunninn yfir hver sé arðsemi bankanna, hver vaxtamunurinn sé og hver þróun kostnaðar sé.

Lilja Alfreðsdóttir á fundinum í morgun.
Lilja Alfreðsdóttir á fundinum í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ekki boðlegt“

Í máli Lilju kom fram að íslensku bönkunum hafi tekist að lækka kostnað sinn verulega á síðustu árum og til viðbótar við það hafi bankaskattur verið lækkaður. Segir hún að stjórnvöld hafi með þessu gert ráð fyrir að þetta myndi skila sér í lægri vaxtamun, en niðurstaðan hafi hins vegar verið sú að vaxtamunur hafi aukist síðustu ár. „Þetta er ekki boðlegt,“ sagði Lilja á fundinum.

Sagði hún að á verðbólgutímum, þar sem aukin vaxtabyrði kæmi þungt við bæði heimili og fyrirtæki, þyrfti fjármálageirinn að taka þátt í að draga úr kostnaði fyrir neytendur. Sagði hún ljóst út frá skýrslunni að bankarnir standi vel, en á sama tíma standi þeir vel til að aðstoða fyrirtæki og heimili til að koma í veg fyrir að vanskil rjúki upp.

Nefndi Lilja að reyndar hefði vaxtamunur þegar kæmi að fasteignaviðskiptum minnkað, en vaxtamunur á fyrirtæki aukist. Sagði hún marga vilja meina að það væri komið til vegna þess að lífeyrissjóðir hafi verið inn á fasteignalánamarkaði og því væri þar aðhald og aukin samkeppni.

mbl.isLilja kom einnig inn á skýrslan hafi leitt í ljós að greiðsluþjónusta væri talsvert dýrari hér en til dæmis í Danmörku. Þar væri í notkun opinbert greiðslukerfi og sagði hún mikilvægt að skoða áfram þá vinnu sem hefur verið í gangi hjá hinu opinbera við greiðslumiðlun.

Á fundinum kom fram að ástæða þess að stéttarfélögin og Neytendasamtökin stóðu að fundinum núna hafi verið til að halda umræðu um hana gangandi og sagði Lilja að lokum að hún teldi mikilvægt að skýrslan yrði rædd á Alþingi og í efnahags- og viðskiptanefnd og í framhaldinu að hún yrði gerð árlega til að auka aðhald með fjármálakerfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert